top of page
Search
  • arnar7

Akureyringar björguðu áhöfn „Geysis“




Á nýliðnu ári voru 70 ár liðin frá stofnun Flugbjörgunarsveitarinnar. Tilefni stofnunarinnar var brotlending millilandaflugvélarinnar Geysis á Vatnajökli fimmtudaginn 14. september árið 1950 á leið sinni frá Luxemborg til Reykjavíkur. Flugvélin var týnd í nokkra daga. Leit var gerð að vélinni og áhöfn hennar úr lofti, á sjó og á landi. Leitin bar árangur síðdegis mánudaginn 18. september þegar flakið fannst sem og áhöfnin þar sem blessunarlega komust allir lífs af. Samdægurs var björgunarleiðangur gerður út frá Akureyri til að koma áhöfninni heillri á húfi til byggða. Ritstjóri Dags á þeim tíma, Haukur Snorrason, fékk að fljóta með. Á meðan tveggja daga leiðangrinum stóð á öræfum Íslands skráði hann ferðasögu sína, Hún birtist í blaðinu þann 24. september undir yfirskriftinni Akureyringar björguðu áhöfn „Geysis“ af Vatnajökli. Í undirtitli var eftirfarandi ritað: Sameiginlegur leiðangur Akureyringa og Reykvíkinga gekk lengri skíðadagleið á jöklinum en áður hefur verið farin á jöklum á Íslandi. Sagnalist rifjar hér upp samtímafrásögn Hauks af einhverjum umtalaðasta atburði Íslandssögunnar á 20. öld.


„Fréttin um að Geysir væri fundinn og áhöfnin á lífi, fór eins og logi yfir akur um þennan bæ sl. mánudag. Var hún sönn, eða var hún óstaðfest flugufregn? Svarið var skjótfengið. Akureyrarradíó, sem að jafnaði hefur talsamband við flugvélar þær, er hingað sækja, staðfesti fréttina þegar. Fjöldi manna safnaðist saman við skrifstofu Flugfélag Íslands, til þess að leita frétta. En þar var lítill tími til að svara spurningum forvitinna bæjarmanna. Þar var þegar byrjað að skipuleggja leiðangur þann, sem bjargaði áhöfn Geysis af jöklinum tveimur dögum síðar. Þegar ég kom á skrifstofu Flugfélagsins um sex leytið á mánudagskvöldið, var skipulagning leiðangursins þegar hafin og þremur stundum síðar voru leiðangursmenn á leið til jökulsins á bifreiðum, með allan nauðsynlegan útbúnað meðferðis. Var engum tíma eytt til ónýtis eftir að ákveðið var að freista þess að aka að jökulröndinni héðan og ganga á jökulinn.


Það var Kristinn Jónsson, framkvæmdastjóri Flugfélagsins hér á staðnum, sem undirbjó förina héðan fyrir hönd flugmálastjórnarinnar, en fararstjóri og foringi leiðangursmanna var þar ákveðinn Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Akureyrar, kunnur ferðamaður og þaulkunnugur í óbyggðum. Þegar ég kom á Flugfélagsskrifstofuna stóð ráðstefna þeirra Kristins og Þorsteins sem hæst. Þorsteinn var þess fús að veita leiðangrinum forstöðu og hann lagði og á ráðin um það, hversu fjölmennur hann skyldi verða og til hverra skyldi leitað. Innan lítillar stundar var listi yfir leiðangursmenn tilbúinn, jeppabifreiðar ráðnar til ferðarinnar og farartími ákveðinn. Var það fámennur hópur en flestir kunnir áræði, dugnaði og útsjónarsemi og svo nokkrir minni spámenn. Ég hafði vonað að komast í þeirri hóp. En þegar var fullskipað í bílana og ekkert rúm fyrir forvitinn blaðamann, sem vafalaust mundi aðeins verða til trafala. Ég horfi spurnaraugum á Kristinn Jónsson. Er engin von um að komast með? Tveir símar hringja í einu, en Kristinn getur ekki svarað nema öðrum. Ég svara hinum. Þar er fyrir Kristján P. Guðmundsson útgerðarmaður. Hann vill tala við Kristinn og bjóða jeppabíl sinn til fararinnar. Boðið er vel þegið, en þegar ráðnir nægilega margir bílar, hins vegar gott að eiga hann að, ef einhver heltist úr lestinni. Þarna er tækifærið! — Hvernig væri það, Kristján, að við gerðumst nokkurs konar skuggar leiðangursins, á þínum bíl; lofuðum því að verða ekki til trafala, en reyndum að hjálpa eftir mætti? Spurningunni er svarað játandi eftir andartaks umhugsun og samþykki leiðangursstjórans fæst þegar. Þar með erum við Kristján ráðnir til Vatnajökulsferðarinnar með sérstökum kjörum. Fór svo giftusamlega, að við gátum staðið við allar okkar skuldbindingar. Urðum ekki fyrir neinum, en reyndum að aðstoða eftir mætti. Þegar þessum fyrsta undirbúningi var lokið, voru tveir tímar til stefnu. Á þeim tíma þurfti að útbúa nesti, fatnað, tjöld, hitunartæki, skíði og sitt hvað fleira, sem nauðsynlegt er að hafa með til óbyggðaferða. Hinir eiginlegu leiðangursmenn voru þá þegar teknir að undirbúa sína för, og komust þeir allir af stað á tilsettum tíma. Við urðum nokkuð síðbúnari, en það kom ekki að sök. Leiðangursmenn höfðu enn ekki lokið ágætri máltíð að Reykjahlíð um miðnæti á mánudagskvöldið, þegar jeppinn hans Kristjáns þeysti í hlaðið, hlaðinn ýmsum búnaði og með einn aukafarþega, sem réðist til ferðarinnar með sömu kjörum og við, Edvard Sigurgeirsson ljósmyndari. Var þar með lokið sérstöðu okkar, því að okkur var ágæta vel fagnað í Reykjahlíð og urðum við brátt óaðskiljanlegur hluti leiðangursins, tilbúnir í allt, en jafnan undir forsjá fararstjórans, og fúsir að hlýta hans fyrirsögn í hvívetna. Þarna í Reykjahlíð sáum við fyrst, hvaða garpar voru ráðnir til ferðarinnar. Voru hinir eiginlegu leiðangursmenn héðan 13. Reyndist það ekki óhappatala og er þar með enn einu sinni hrundið þeirri bábilju, að gifta fylgi ekki þeirri tölu. Þar að auki vorum við þrír, fyrrnefndir, aukamenn. En auk þessara 16 manna voru þarna komnir 8 vaskir Reykvíkingar á fjórum jeppana. Voru jepparnir þá alls níu og þar að auki stór vöruflutningabifreið með ýmsan útbúnað, aðallega benzín fyrir jeppana, skíði leiðangursmanna og ýmsan annan farangur.


Leiðangursmenn kynntir


Í Reykjahlíð var auðsætt, að lítið rúm mundi þó fyrir hægindastólaferðamenn. Þarna voru saman komnir þaulvanir fjallgöngumenn og skíðamenn af Akureyri og auk þeirra Reykvíkingarnir 8, nýkomnir úr margra daga öræfaferð og albúnir í nýjar svaðilfarir. Skulu Ieiðangursmenn nú kvnntir lesendum: Fyrst skal telja fararstjórann, Þorstein Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Ferðafélags Akureyrar. Er hann löngu, kunnur ferðamönnum fyrir forustu margra leiðangra um óbyggðir. Með honum var Tryggvi sonur hans, skátaforingi á Akureyri, þá Ólafur Jónsson framkvæmdastjóri, sá maður, sem mest og bezt hefur kannað öræfin norðan Vatnajökuls og er þar manna kunnugastur, Jón Sigurgeirsson, lögregluþjónn frá Helluvaði í Mývatnssveit, ágætur fjallamaður og ferðamaður, sem mörgum ævistundum hefur eytt í óbyggðum, Þorsteinn Svanlaugsson bilreiðarstjóri, ágætur, þaulvanur ferðamaður, þá Vignir Guðmundsson tollvörður, Sigurður Steindórsson afgreiðslumaður, Þráinn Þórhallsson afgr.m., Bragi Svanlaugsson bifv.v., Grímur Valdimarsson trésm.m., Hólmsteinn Egilsson bifreiðastjóri ók vörubifreið, mikilli og þungri og svo við, þrír fyrrnefndir aukamenn. Alls 16 menn af Akureyri. — Reykvíkingarnir höfðu verið í óbyggðum nokkra hríð, allir ágætlega útbúnir og tilbúnir til stórræða. Þeir voru á fjórum jeppum, tveir, í hverjum: Hinn kunni ferðagarpur Guðmundur Jónasson frá Völlum, var hann fararstjóri og forsjá þeirra Reykvíkinganna og með honum í bíl Þórarinn Björnsson, hinn vaski jöklafari, sem kom glaður og reifur til tjaldstaðar við Kistufell eftir 25 klukkustunda útivist á Vatnajökli. Aðrir leiðangursmenn úr Reykjavík voru: Ásgeir Jónsson, Gísli Eiríksson, Sigurgeir Jónsson, Magn. Sigurg.s., Jónas Jónass., og Einar Arason. Reyndust þeir allir ágætir félagar, og tókst þegar góð samvinna við þá, sem hélzt upp frá því. Mun ekki ofsagt, að sjaldan hafi tekist ánægjulegri samvinna milli Norðlendinga og Sunnlendinga en undir Kistufelli þessa örlagaríku septemberdaga.





Lagt upp í sögulega ferð


Á Akureyri hafði verið ráðgert að halda frá Reykjahlíð að Grænavatni og þaðan suður á bóginn, allt til jökulsins, um Suðurárbotna og fjalllendið vestan Dyngjufjalla. En Reykvíkingarnir, sem nýkomnir voru af Sprengisandi, sögðu verulega vatnavexti og blota á vesturleiðinni. Á ráðstefnu fararstjórans og Ólafs Jónssonar var ákveðið að breyta áætlun og fara austurleiðina, sem þeir kölluðu, þ. e. um Herðubreiðarlindir, Upptyppinga, Vaðöldu og sandana norðan Vatnajökuls, allt að Kistufelli. Reyndist þetta hið mesta happaráð, því að þótt þessi leið sé lengri á kortinu, mun hún hafa verið styttri í reyndinni. — Lindaá, aðalfarartálminn, varð vel viðráðanleg. Sandarnir, sem að jafnaði eru blautir og illir yfirferðar, voru nú greiðfærir vegna þess, að frost höfðu verið í óbyggðum um skeið. Var austurleiðin ákveðin áður en menn gengu til náða. Var þá liðið á nóttu, og varð lítið um svefn víða, enda þótt öllum væri búin hinn bezti beini. Á fimmta tímanum á þriðjudagsmorguninn voru allir komnir til jeppanna, tilbúnir til ferðarinnar, eftir að hafa þegið ágætan morgunverð í Reykjahlíð. Var þá myrkt af nóttu, hiti um frostmark og skuggalegt að líta til hálendisins. Létu menn það ekki á sig fá og héldu bjartsýnir austur á Mývatnsöræfi, enda er sú leið um ágætan veg og greiðfæran.


Snúið til óbyggða


Austarlega á Mývatnsöræfum, austur undir Jökulsá, var snúið af þjóðveginum nýja til Austurlands og til óbyggðanna. Er vegur allgreiðfær suður með Jökulsá, yfir sanda og melöldur, fram hjá Hrossaborg, hinum sérkennilega gíg, um hraunöldur og grjótsanda, til Grafarlanda, afréttar þeirra Mývetninga. Er þar fagurt um að litast, og liðast Grafarlandaá, tær og fögur, um melvaxna bakka. Gróður er næsta lítill á þessum slóðum, og mann furðar á því, að Mývetningar skuli geta alið fé sitt á afrétt þessari. Mun hún þó sanna þá kenningu landa okkar, Vilhjálms Stefánssonar, að norðlægur gróður, sem hann kallar „herbal growth“ sé kjarnbetri og næringarmeiri en grasvöxtur suðrænna landa. Frá Grafarlöndum er ekið um sandöldur til Herðubreiðarlinda. Er sá vegur þegar allfjölfarinn, og er ferðin vissulega þess virði, að menn leggi nokkuð að sér. Hér er einn sérkennilegasti og fegursti hluti landsins. Herðubreið, drottning íslenzkra fjalla, rís upp úr flatneskjunni í allri sinni dýrð og sýnir okkur kollinn annað slagið, en vefur hann þokuskýjum hitt veifið. Setuliðið hér á stríðsárunum gaf henni verðugt nafn á sínum tíma, er setuliðsmenn óku leiðina milli Norðurlands og Austurlands. „The Queen Mountain“ hét hún á þeirra máli, og var það réttnefni.





Við Lindaá er fyrsti farartálmi leiðangursmanna. Lindaá er fögur bergvatnsá, sem kemur undan rótum Herðubreiðar, en Jökulsá, forynjan mikla, nær tangarhaldi á bergvatnsánni og breytir henni í allferlegt jökulvatn á skammri stund. Rennur hún síðan um víðáttumiklar eyrar undan Lindaárhorni, en þar er hraunjaðarinn á árbakkanum, og er landslag þar fagurt og sérkennilegt. En Lindaáin stöðvar ekki leiðangur okkar. Jepparnir ösla yfir kvíslarnar þrjár, hver af öðrum, og brátt eru leiðangursmenn staddir í Herðubreiðarlindum, hinum fagra og sérkennilega „óasis“ í þeirri miklu auðn. Gras og hvönn og tærar lindir eru annað aðaleinkenni þessa náttúruundurs, en sandar og hraun hitt aðaleinkennið. Yfir þessum andstæðum trónar drottning fjallanna, Herðubreið, með miklu veldi. Lítil töf er þarna gerð. Þessi leiðangur hefir engan tíma til að skoða Eyvindarkofa. Annað ætlunarverk er fram undan. Mun ekki oft hafa borið við á síðari árum, að ferðamönnum lægi svo á suður öræfin, að þeir gæfi sér ekki tíma til að skoða ból hins ógæfusama útilegumanns. Jeppunum var því beitt á Herðubreiðarhraun án tafar.


Versta torfæran


Herðubreiðarhraun er víðáttumikið og illt yfirferðar. Suður undir lindirnar eru bílaslóðir, en á hraunbungunum marka bílar engin spor. Tveir til þrír menn ganga á undan lestinni og leita greiðustu leiðar milli hrauntaglanna, en leiðangursmenn beita jeppunum óspart á hraungrýtið. Er það raunar ójafn leikur, en hugvitið snýr á náttúruna hvað eftir annað, og ýmsir bílstjórar leika kúnstir þarna í hrauninu, sem raunar væru efni í sérstaka frásögn, er bíða verður betri tíma.


Og svo er hraunið að baki. Jökulsá á vinstri hönd, ill og úfin, en Dyngjufjöll, hvít og leyndardómsfull, á þá hægri. Virðist ekki fýsilegt að komast í kast við þau. En framundan er mikil víðátta, sandar og melar, framhjá Vaðöldu og allt undir jökulrætur. En sandurinn er blautur og illur yfirferðar og sækist seint, þótt greiðfær virðist. Jökullinn, svartur og úfinn í röndinni, nálgast því hægt, en þó nægilega hratt til þess, að menn sjái ógnir hans, tign og veldi, og erfiðleika þá, sem framundan bíða, að sigrast á víðáttunni, torfærunni, kuldanum og óvissunni, sem eru hans aðalsmerki.





Sendiboðinn fyrsti


Dyngjuvatn er skammt að baki, er fyrsti sendiboðinn af jöklinum kemur til leiðangursins. Það er fagurt við Dyngjuvatn, þegar veður er stillt, vatnið er lygnt og speglar fjöllin, en líklega er það ekki staðfastur leiðsögumaður, því að það getur horfið algerlega, þegar þannig liggur á náttúrunni, og vatnsbotninn sameinast hinum mikla sandi og gerist óaðskiljanlegur hluti hans.


Kaffið sem hvarf


Suður undan Dyngjuvatni þreyta jepparnir förina, og er færið þungt. En jökullinn, hinn mikli fjandi, er framundan, og hvetur dugnað og harðfengi manna. Margur benzíngjafinn er þá djúpt settur á jeppunum, og sandurinn hverfur undan hjólunum með furðulegum hraða. Og svo kemur fyrsti sendiboðinn af jöklinum. Þegar svört hraunalda jaðarsins er að koma í augsýn, rennir stór flugvél sér fram yfir jökulbrúnina og leikur ýmsar listir fyrir ofan bílaröstina. Þetta er marglit og hraðskreið björgunarflugvél af Keflavíkurflugvelli, og hefir verið yfir flakinu af Geysi langar stundir. Við Edvard stökkvum út úr jeppanum og reynum að festa á ljósræmuna hvítan jökulinn, svartan sandinn, marglita flugvélina og himinblámann. Og svo kemur óvænt töf. Úti á sandinum hefir kælivatnið þorrið af bílnum. Hitamælirinn sýnir óhugnanlega hátt hitastig á þessum aðalaflgjafa okkar prívatleiðangurs, og nú eru góð ráð dýr. Ekkert vatn fyrr en undir jökulrótum, en við annars fastir í sandinum. Meðan marglita flugvélin af Flying Fortress gerð rennir sér yfir bílinn okkar hvað eftir annað, færum við jeppanum stóra fórn. Kaffigeymar okkar félaganna eru tæmdir, hver af öðrum, í kælidunk jeppans. Mælirinn hverfur aftur til eðlilegrar hitaskráningar, en vonirnar um heitt kaffi undir jökulrótum og eftir væntanlegar svaðilfarir á jöklinum, gufa upp í himinhvolfið og hverfa suður af jöklinum með björgunarflugvélinni, sem er að reyna að sýna okkur rétta stefnu á Geysi og skipbrotsmenn hans.


Þessi flugvél varpaði orðsendingu niður til fararstjórans og sagði þar frá undirbúningi þeim, sem hafinn var í Reykjavík til björgunar með flugvélum, en við beðnir að halda áfram eigi að síður, og sagðist flugvélin mundi koma aftur. Hvarf hún síðan á jökulinn í stefnu á Geysi, en förin upp að jöklinum hélt áfram, og brátt var komið fast að jökulrótunum.


Undir jökulrótum


Jökulbrúnin rís þarna brött upp frá sandinum. Hún er sjálf öll sandorpin og hnúkótt og æði tröllsleg ásýndum. Virtist ógreiðfært upp á jökulinn þar sem við komum fyrst að honum, en það kom ekki að sök, því að við vorum enn of austarlega, og var nú haldið vestur sandana meðfram jökulbrúninni. Á leiðinni til Kistufells ,sem var fyrirheitna landið, rís upp brattur grjótháls, sem ber nafnið Urðarháls. Var jeppunum beitt á hann. Sóttist ferðin heldur seint, enda var þetta einn mesti tröllavegur ferðarinnar. Vörubíllinn stóri var skilinn eftir þarna í hálsinum, en skíðin bundin á jeppana. Fóru margir fótgangandi vestur yfir þennan háls til þess að létta á jeppunum og leita að greiðustu leiðinni vestur yfir. Gekk allt slysalaust, og mátti nú heita allgreiðfært vestur sanda og leirur, að rótum Kistufells. Var komið í krikann milli jökulsins og fjallsins um 5-leytið á þriðjudaginn, og hafði förin að norðan gengið framúrskarandi vel og leiðin reynzt mun auðsóttari en gera mátti ráð fyrir. Voru menn glaðir og reifir að vera komnir þetta langt og óðfúsir að leggja á jökulinn til björgunarstarfsins.





Undirbúningur við jökulinn


En jökulganga verður ekki farin svo formálalaust. Þurfti hér margt að athuga. Fararstjórinn gaf fyrirskipun um að menn skyldu slá tjöldum og búa um sig. Jörð var hvít þarna efra og nokkurt frost. Var heldur kuldalegt að tjalda á frosnum sandinum, því að degi var tekið að halla. En innan lítillar stundar var lítil tjaldborg sprottin upp þarna, og var bílunum raðað umhverfis hana. Var nú ráðstefna um, hvað gera skyldi. Vildu sumir þegar ráðast til uppgöngu á jökulinn, en aðrir töldu það hið mesta óráð að ætla sér að hefja gönguna undir nóttina, hentara væri að kanna uppgöngumöguleikana um kvöldið, enda tóku nú að berast orðsendingar í gegnum útvarpið um björgunarfyrirætlanir með flugvélum. Gerðum við hálft í hvoru ráð fyrir, að annað tveggja skíðaflugvélin, sem átti að lenda þennan dag, eða helikopterinn, sem sagður var kominn til landsins, myndi bjarga skipbrotsmönnum, og við mundum snúa heim við svo búið. Það varð úr, að fararstjórinn ákvað að kanna skyldi uppgöngumöguleikana þá um kvöldið, en síðan skyldi ráðast í jökulgönguna með birtu daginn eftir. Fóru þá nokkrir leiðangursmanna þegar til könnunar á krikanum austan Kistufells, sem síðan varð aðalleið leiðangursmanna á jökulinn, en aðrir fóru vestur fyrir Kistufell. Leiðin upp krikann reyndist mjög brött og erfið, en samt vel fær. Auðveldara var að komast á jökulinn í krikanum vestan Kistufells, en þangað var naumast unnt að aka, og þá a.m.k. hálfrar annarrar stundar gangur að jöklinum frá tjaldborginni. Þegar könnunarleiðangrarnir komu heim seint um kvöldið, var ákveðið að ganga skyldi á jökulinn í krikanum beint upp frá tjaldborginni. Þetta kvöld kom björgunarflugvélin aftur og varpaði niður orðsendingu. Flugtak skíðaflugvélarinnar hafi mistekizt, en búizt við að hún mundi geta hafið sig til flugs með morgninum. Leiðangurinn beðinn að halda sér við sínar áætlanir eigi að síður. Var nú ákveðið að ganga á jökulinn með birtu, hvað sem öðru liði, og fara að flakinu.


Orðsendingarnar í útvarpinu


Þennan dag og þann næsta bárust ýmsar orðsendingar til leiðangursmanna frá flugumferðastjórninni, í gegnum ríkisútvarpið, og voru sumar ærið undarlegar. Kann ég ekki að rekja efni þeirra allra, en sumar voru fráleitar. T.d. var svo frá skýrt einu sinni að búið væri að bjarga fólkinu, en leiðangurinn var beðinn að halda samt á jökulinn og bjarga einhverju af varningi úr Geysi. Virtist sem þeir, er þessum málum stýrðu í Reykjavík, gerðu sér engan veginn ljóst, hver aðstaða var til björgunar þarna og að það væri meira en meðal spássértúr að ganga tugi kílómetra á skíðum á bungu Vatnajökuls.


Þrútið loft


Þeir, sem ætluðu að ganga á jökulinn, undirbjuggu allt sem bezt þeir máttu um kvöldið. Ætlað var að þeir mundu hefja uppgöngu áður en birta tæki og var því nauðsynlegt að hafa matföng og tæki öll tilbúin þegar um kvöldið. Skriðu menn síðan í svefnpoka sína, en ekki mun öllum hafa orðið svefnsamt. Næsti dagur mundi verða erfiður og munu ekki allir hafa verið áhyggjulausir. Leiðangursmenn voru að vísu samhentir og allvel búnir,en samt varð ekki litið fram hjá þeirri staðreynd, að leiðangurinn var staddur 170 km. frá byggð með marga bíla og takmarkaðan útbúnað. Ef snjóa tæki og heimleiðin lokaðist, var vissulega ekki glæsilegt að eiga marga náttstaði undir jöklinum. Björgunarstarfið og örlög leiðangursins var undir veðrinu komið. Hvernig skyldi viðra á morgun? Það mun hafa verið síðasta hugsun flestra, er þeir festu blund 2—3 klukkustundir þessa nótt.


Klukkan hálffjögur vakna ég við mannamál í tjöldunum næstu. Það er kalt í tjaldinu, nokkurt frost úti og þreifandi myrkur. Mér heyrist jökulfarar vera komnir á kreik. Ég hafði útbúið mig um kvöldið til þess að halda á jökulinn með þeim ef veður væri bjart og gott og ég gæti fullvissað þá og sjálfan mig um að ég yrði þeim ekki til trafala, heldur gæti af eigin rammleik snúið við ef leiðin reyndist of örðug eða löng. Jökulfarar mundu vissulega hafa öðrum störfum að sinna en bjarga leiðangursmönnum af jöklinum. Það er enn myrkt af nóttu, en samt sýnilegt að veðurútlitið er slæmt. Ísgrá þoka liggur yfir öllu og írir úr henni. Dimman virðist liggja eins og mara yfir tjöldunum og jöklinum. „Hann snjóar fyrir hádegi,“ segir einhver. Útlitið er ekki glæsilegt. Jökulfararnir bera saman ráð sín. Veðurútlitið virðist ískyggilegt, en þess er að gæta, en enn er nótt og enginn veit hvað dagurinn kann að bera í skauti sér. Ákveðið er að halda þegar á jökulinn samkvæmt áætlun og vera komnir upp á brúnina með birtu. Klukkan hálf fimm leggja 13 menn af stað upp brattann, 9 jökulfarar og fjórir aðstoðarmenn, sem hjálpa þeim að bera skíðin upp á brún. Nokkrir eru eftir í tjöldunum. Laust fyrir klukkan fimm, sjáum við, sem þar bíðum, mennina þrettán hverfa í þokuna. Síðan hefst löng bið.

Sól á tindum


Við Kristján Guðmundsson höfðum orðið eftir við tjöldin. Við vorum aukafélagar í leiðangrinum og sízt af öllu vildum við verða honum til byrgði. Við þóttumst ekki hafa leyfi til að halda á jökulinn í tvísýnu veðurútliti. Leiðangursmenn þurftu að eiga krafta sína til annars en að bjarga okkur, ef illviðri brysti á jöklinum.


Eftir þrjár stundir koma fjórir menn ofan krikann við Kistufellið. Enn er sama veður við tjöldin, þoka liggur yfir landinu, hrollköld og draugaleg. Fjórmenningarnir að ofan koma heitir og sveittir af göngunni og léttir í spori. „Það er sólskin á jöklinum,“ segja þeir. „Heiður himinn þegar komið er upp fyrir 1200 metra hæð,“ þ. e. í efstu drög Kistufellsins. Jökulfararnir höfðu lagt inn á jökulinn þegar eftir uppgönguna í bjartviðri og sólskini. Flugvélar voru þegar komnar á vettvang og teknar að hnita hringi yfir flakinu. Leiðangursmenn höfðu áætlað að gangan á jöklinum muni ekki taka meira en 5 klst. hvora leið.





Haldið upp í birtuna


Fréttirnar um sólskinið komu blóðinu á hreyfingu. Skyldi það vera munur að baða sig í birtunni þar efra! Hér niðri var allt umvafið ísaþokunni, sem er svo köld, að einn leiðangursmanna sagði: „Hún smýgur í gegnum fötin, inn úr skinninu, alla leið inn í hrygg, já, og í gegnum hann inn í mænuna, ég finn hvernig hún stendur í mænunni! „ Eftir að hafa hlýtt á fréttina um birtuna og sólskinið, grípum við Kristján skíðin okkar, stingum nokkrum brauðsneiðum í vasann, ég, spenni á mig myndavélarnar mínar, og síðan kveðjum við kóng og prest við jökulræturnar og höldum upp á Kistufellið. Svo er um talað, að við verðum þar um tíma til taks, en megum líka, ef við viljum, halda inn á jökulinn. Um klukkan 10 erum við farnir að feta upp brattann fyrir ofan tjaldbúðirnar og berum skíðin. Leiðin liggur um þröngt gil, í milli jökulsins og fjallsins. Slóðin er greinileg en brattinn mikill. Þetta er nærri því eins og að ganga upp stiga. Ferðin sækist seint. Eftir að gilið þrýtur, taka við hjallar, hver af öðrum. Þegar komið er upp á eina brúnina, blasir önnur við. Tindurinn virðist víðsfjarri. Við hvílum oft. Enn hangir ísþokan yfir öllu, en þegar við höfum gengið þrjá fjórðu leiðarinnar á tindinn, fer að rofa til og við sjáum himinbláma bregða fyrir. Þessi sýn hressir okkur og við herðum gönguna. Eftir hálfrar annarrar stundar ferð upp brattann, komum við að merkistönginni, sem jökulfararnir höfðu skilið eftir í brúninni. Þaðan liggur slóð þeirra inn á jökulinn, út í þokuna, sem hefur hækkað sig síðan þeir voru þarna á ferð. Við rennum okkur í fyrstu brekkurnar í hvosinni, sem er í milli jökulsins og Kistufellsins. Skyggni er nær ekkert, en slóðin er samt greinileg við fætur okkar. Ef ekki birtir upp, verður okkar ferð ekki lengri að sinni.


En á skammri stundu skipast veður í lofti. Sólargeislarnir ryðja sér braut gegnum þykknið og sópa því burt. Innan stundar sjáum við langt inn yfir jökulinn. Slóð félaga okkar er augsýnileg eins langt og augað eygir, stefnir í suðvestur og þarna hnitar flugvél hringi langt inn á jökulinn. Þar er áfangastaðurinn. Við rennum okkur í síðustu brekkurnar og tökum síðan að ganga á bunguna. Skíðafærið er dásamlegt, þarna er hinn eftirsótti perlusnjór. Skíðin renna í hverju spori. Þetta er furðulegur heimur: Blár himinn, hvít snjóbreiða eins langt og augað eygir, en að baki svartir klettar Kistufellsins, sem gnæfa upp úr ísnum. Og áfram liggur slóðin, leiðangursmenn hafa farið gæsagang, þetta er eins og einn skíðamaður hafi verið á ferð. Við þræðum förina nákvæmlega og gætum þess að fara ekki neina hringi eða útúrdúra. Slíkt gæti reynst þeim hættuleg blekking, ef að syrti eða þræða þyrfti slóðina aftur í náttmyrkri.


Hvannastönglar og lopi


Á hæðardrögunum sunnan við Kistufellið hafa jökulfararnir skilið eftir merkjastengur, en þegar þær þraut, hvannarstöngla úr Herðubreiðarlindum. Þegar við áðum þar, hnippti Jón Sigurgeirsson í mig og sagði: „Hjálpaðu mér að tína nokkrar feiskjur. Það verður gott að hafa þær á jöklinum á morgun!“ Við rífum upp knippi af feiskjum og Jón kom þeim fyrir á vörubílnum. Hann hafði ekki gleymt að binda þær á bakið þennan morgun og nú stóðu þær þarna upp úr jöklinum með svartan lopa í kollinum. Lopann lagði Tryggvi Þorsteinsson, fararstjóri jökulfaranna, til. Reyndist þessi fyrirhyggjusemi þeirra félaga mesta björg, er náttmyrkur skall á.


Við þræðum slóðina áfram, inn á jökulinn. Það er sálardrepandi að ganga á jökulbungunni. Ekkert miðar áfram. Hver hæð leynir annarri. Sporin eru mörg, en takmarkið færist lítið nær. Við göngum í þrjár stundir í slóð jökulfaranna. Þá er komið á bungu sunnan Rjúpnafellsjökuls og má þá sjá greinilegar en áður, hvar flakið raunverulega liggur. Flugvélar hnita enn hringi þar yfir, og eru nú nær en fyrr, en ekki nógu nærri. Við sjáum hér, að vegalengdin er miklu meiri en við höfðum reiknað með. Okkur sýnist við vera hálfnaðir, en það þýðir 6—7 stunda göngu að flakinu, í stað 4—5, sem upphaflega hafði verið ætlað. Dæmið lítur því þannig út í okkar augum: Ef við höldum áfram úr því sem orðið er, er líklegast að við mætum leiðangursmönnum kílómetra eða svo frá flakinu og verðum að snúa við með þeim þar. Þeir hafa þá hvílt sig þar efra, en við verðum þá að ganga leiðina til baka án hvíldar. Slíkt væri okkur ofraun og gæti orðið þeim til trafala og þyngsla. Úr því sem orðið er, er ekki um annað að ræða en snúa við og bíða heldur við jökulbrúnina og aðstoða þar eftir mætti.


Og svo snúum við skíðunum í norður og höldum sömu leið til baka. Þokubakki veltir sér yfir jökulinn úr austri og skellur brátt á okkur. Skyggnið þverr nær alveg. Einu sinni sjáum við mann í slóðinni, nei, þetta er ekki maður, heldur hundur! Líklega hundur úr flakinu. En þegar skíðalengd er eftir í „hundinn“ sjáum við að þarna er einn hvannastöngullinn hans Jóns með lopahattinum hans Tryggva. Svona leikur þokan sjónina. En leiðin til baka er fljótfarnari. Það hallar undan og færið er gott. Við göngum bakaleiðina á skemmri tíma en uppeftir. Eftir hvíld á brúninni látum við berast niður hlíðina og að tjöldunum. Degi er tekið að halla og við vonum að fá fréttir af björguninni í tjöldunum í gegnum útvarpið.


Talstöð í þúsund molum


Í tjöldunum bíða fréttirnar okkar. Útvarpið hefir verið að flytja okkur tilkynningar allan daginn. Enn er verið að reyna að koma skíðaflugvélinni í loftið, en hver tilraun mistekst. Helikopterinn er ekki lengur nefndur. Okkur þykir ósennilegt að flugið takist héðan af og furðum okkur á því kappi, sem lagt er á þá hlið björgunarinnar, þegar ekki er nema steinsnar að leiðangri okkar takist ætlunarverk sitt. Þetta kvöld kemur Grummanflugbátur svífandi yfir tjaldbúðirnar og varpar niður talstöð, sem við höfum lengi þráð. En slysalega tókst til. Spottinn, sem opna átti fallhlífina, reyndist of veikur, kassinn þeyttist niður, án þess að fallhlífin opnaðist, og sprakk í þúsund mola á steini í sandinum. Var sendistöðin heldur ófögur álitum, þegar við drógum hana upp úr brakinu. Var þar með úti um þá von, að við gætum fengið talsamband við mennina á jöklinum eða við flugvélarnar. Þessi flugbátur varpaði niður tilkynningu til okkar, sem geymdi miklar fréttir. Flugumferðastjórnin virtist loksins uppgefin á skíðaflugvélinni, og hafði ákveðið að áhöfn Geysis skyldi fara með okkar mönnum af jöklinum. Taldi flugmaðurinn á Grummanbátnum, að leiðangurinn á jöklinum væri þegar farinn af stað. Um líkt leyti kom lítil flugvél aðvífandi. Hafði okkur verið tilkynnt, að hún myndi reyna að lenda. Höfðum við merkt flugbraut í sandinn, en þessi flugvél virti okkur ekki viðtals, heldur þeysti austur á bóginn. Mun þar hafa verið á ferð flugvél sú, sem leitaði lendingarstaða á söndunum, því að enn skyldi fljúga með áhöfnina, væri þess nokkur kostur. Engin tilkynning um förina af jöklinum barst í útvarpinu, og vissum við ógerla, hvað þeim málum leið, fyrr en útvarpið hóf kvöldfréttir sínar klukkan 8. Þá var sýnt, að leiðangursmenn og áhöfnin voru lagðir upp á jökulinn fyrir nokkru, sömuleiðis Bandaríkjamennirnir af skíðaflugvélinni. Var nú allt undirbúið sem bezt til að taka á móti fólkinu, en þrír menn gerðir út upp á jökulinn til þess að aðstoða fólkið ef með þyrfti. Í þá ferð völdust Gísli Jónasson úr Reykjavík, Jóhann Helgason og Haukur Snorrason af Akureyri.





Farið upp brattann í myrkri


Þegar uppgangan hófst, var komið náttmyrkur og þokan aftur lögst yfir allt. Við höfðum tvö góð vasaljós meðferðis og sóttist ferðin upp brekkurnar vel. Þegar kom upp undir brúnina sáum við svifblysum skotið inni á jöklinum og vissum þá, að leiðangurinn var mjög tekinn að nálgast. Stóðst það á endum, að við komum á tind Kistufellsins og fyrsti hópurinn kom af jöklinum. Var það öll áhöfn Geysis, að flugþernunni undanskilinni, Sigurður Jónsson, flugmaður, sem verið hafði í skíðaflugvélinni og af okkar mönnum þeir Edvard Sigurgeirsson, Sigurður Steindórsson og Þráinn Þórhallss. Þarna fengum við þær fréttir, að aðrir leiðangursmenn væru enn langt inni á jökli, fyrri hópurinn með sleðann og flugþernuna og farangurinn, en hinn síðari með Bandaríkjamennina. Í þessum fyrsta hópi voru allir hressir þótt þreyttir væru og þyrstir. Urðu fagnaðarfundir, er leiðangurinn var þannig kominn í samband við tjaldborgina. Þessi næturstund þarna á jökulbrúninni verður mér ógleymanleg, er áhöfnin úr helju heimt, lagði upp síðasta áfangann yfir fjallið, en við þremenningarnir héldum áfram inn á jökulinn til móts við sleðafólkið. Áttum við von á því, að það mundi um klukkustundar gang á undan. Þegar brekkurnar í hvosinni þrutu, ákváðum við að bíða þar átekta og skutum flugblysum, til þess að gera vart við okkur. Þá tókum við að hóa og kalla, en fengum ekkert svar annað en bergmálið frá Kistufelli, sem ómaði undarlega yfir jökulbreiðuna. Þarna var gengið um gólf nokkra stund, en síðan haldið lengra. — Eftir nokkra göngu þóttumst við heyra óm af mannamáli. Tókum við þá að kalla og fengum svar. Var síðan kallazt á, unz við sáum grilla í tvo menn á göngu í myrkrinu. Voru þar komnir Ólafur Jónsson og Jón Sigurgeirsson og höfðu gengið á hljóðið. Höfðu þeir þær fréttir að færa, að ógerlegt hefði reynzt að finna slóðina lengur í náttmyrkrinu, eftir að þokan lagðist yfir með fullum þunga, og væri fólkið sezt að og mundi bíða birtingar í snjóhúsi. Viðhorfið breyttist nú, er við vorum komnir á vettvang með ljós. Sneru þeir þegar við með okkur til sleðans. Er þangað kom, var verið að hlaða snjóhúsið. Stóð Vignir Guðmundsson, tollvörður, í því, en flugþernan hvíldist á farangrinum. Var hún furðanlega hress. „Hvaðan komið þið, elskurnar?“ spurði hún, er við komum að sleðanum. Hún kvaðst albúin að halda áfram. Í þessum svifum kom Þorsteinn Svanlaugsson að sleðanum innan af jöklinum. Hafði hann, ásamt Þórarni Björnssyni úr Reykjavík, fylgt Bandaríkjamönnunum, sem síðast lögðu upp frá flakinu. Var einn Bandaríkjamaðurinn lagstur fyrir og uppgefinn, en hinir að þrotum komnir. Varð að senda hjálp til Þórarins hið fyrsta. Tryggvi Þorsteinsson, fararstjóri jökulfaranna, var skjótur til ákvarðana. Gísli og Jóhann skyldu taka sleðann og halda inn á jökulinn til Þórarins, en við hin halda áfram fótgangandi til tjaldanna. Var nú farangrinum rutt af sleðanum, og það af honum, sem léttast var, lagt á bak leiðangursmanna, en þeir Sveinn og Jóhann tóku sleðann, spenntu á sig skíði og lögðu á jökulinn, til móts við Þórarin og Bandaríkjamennina. Var þá komið nokkuð fram yfir miðnætti. Var sannast sagna heldur ömurleg tilvera á jöklinum þessa stund. Vitneskjan um neyðarástandið inni á jöklinum vakti ugg og ótta, en hins vegar var alllöng leið fram undan fyrir okkur hin, og við vorum ljóslaus, með því að þeir Gísli og Jóhann þurftu að fá eina vasaljósið til þess að finna slóðina inn jökulbreiðuna. En þarna skildu leiðir. Þeir félagarnir tveir héldu inn á jökulinn og voru röskir að kippa sleðanum með sér, en við hin lötruðum í átt til tjaldanna með það af farangrinum, sem hægt var að bera á bakinu. Fór sú lest heldur hægt. Það vakti aðdáun okkar allra, hversu flugþernan var hress í bragði og bar sig vel, þrátt fyrir meiðsli og þreytu. Hún var þess fús og albúin að ganga það, sem eftir var leiðarinnar og senda sleðann inn á jökulinn. En leiðangursmenn innan af jöklinum studdu hana og hjálpuðu henni alla leiðina. Þar sem erfiðast var, studdu tveir menn hana, en á jafnsléttu gekk jafnan einn maður með henni og studdi hana. Voru þeir Vignir Guðmundsson og Þorsteinn Svanlaugsson röskir og öruggir aðstoðarmenn. Þetta ferðalag meðfram Kistufellinu og að brúninni varð heldur tafsamt. Nóttin var svört og þokan líka, og við vorum ljóslaus. Slóðinni mátti ekki týna, og það reyndist erfitt verk að halda í hana. Stundum máttu þeir, sem fyrir fóru, bókstaflega þreifa á jöklinum, til þess að finna, hvar hún var. Hvíldir voru margar, en stuttar. Jökulfararnir voru örþreyttir, en glaðir og reifir yfir giftusamlegum endalokum leiðangursins, enda þótt menn hefðu nokkrar áhyggjur af líðan Bandaríkjamannanna. Ólafur, Jón og Tryggvi gerðu sér það til dundurs að botna vísur, hver fyrir annan, og urðu sumar skemmtilegar. Hið góðkunna „humor“ þeirra félaga brást aldrei, en þreyttir voru þeir og þyrstir. Þorstinn var erfiðastur. Á jöklinum var líklega 15 stiga frost, og vatn í vasapelum þeirra fraus, og urðu þeir að þíða það inn á sér. Hver dropi var dýrmætur og gaf aukinn þrótt.


Áfanga náð


Þessi lest sniglaðist áfram þarna um nóttina, ofur hægt, en örugglega. Slóðin fannst jafnan um síðir og loks kom að því, að merkistöngin á fjallsbrúninni blasti við. Þá var hvílt um stund, en síðan „látið reka“ niður fjallið, í slóðina, sem nú var margtroðin og mjög greinileg. Það vakti aðdáun allra, sem þarna voru á ferð, hversu flugþernan, Ingigerður Karlsdóttir, var dugleg, hörð og æðrulaus. Hún var málhress í bezta lagi og sagði okkur alla söguna af slysinu og dvölinni á jöklinum, og hún kvartaði aldrei, enda þótt vitað væri, að hún væri meidd, a.m.k. rifbrotin. Nú hefir komið í Ijós, að meiðsli hennar voru meiri en upphaflega var ætlað. Hefir þessi ganga hennar um jökulinn og Kistufellið vissulega verið mikil þrekraun.


Uppljómuð tjaldbúð


Þegar halla tók ofan af fjallinu, sáum við sýn, sem var í senn fögur og hressandi. Tjaldbúar höfðu ekið jeppum sínum upp í gilið og létu kastljós varpa birtu upp í fjallið. Sást þessi ljósadýrð langa vegu og hafði örvandi og hressandi áhrif á þá, er að ofan komu. Jökullinn, svartur og hnúkóttur, varð nærri því fallegur í þessum ævintýraljóma. Og svo var komið í áfangastað. Þar voru til reiðu ágætar veitingar, brennheit mjólk, kaffi og brauð og svefnpokar handa jökulförunum. Áhöfnin, sem fyrst kom að tjaldinu var þá í fasta svefni og brátt gátu þeir, sem í þessum flokki voru, líka hallað sér, þótt hvílurúm væru óhæg. Þessa nótt hafði frostið hert, og þurfti karlmennsku til þess að skríða í svefnpoka í köldu tjaldi, sem blásið hafði allan daginn. Ég lagðist fyrir á jeppagólfi, lá þar í einni hrúgu í svefnpoka mínum og svaf í þrjú kortér. Þannig munu fleiri hafa hvílt sig, en áhöfnin fékk að sjálfsögðu betri aðbúnað. Var allt gert, sem unnt var, til þess að áhöfn Geysis gæti hvílzt sem bezt, við þær aðstæður, sem fyrir hendi voru.


Þáttur Reykvíkinga


Fyrr er sagt frá reykvískum fjallamönnum, sem slógust í för með okkur. Einn þeirra, Þórarinn Björnsson, gekk á jökulinn og hafði þar lengsta útivist allra, með Bandaríkjamönnunum. Þáttur þessa fámenna hóps úr Reykjavík í björgunarleiðangri þessum, var glæsilegur. Þar var valinn maður í hverju rúmi. Hjálpsemi þeirra, drenglyndi og dugnaði var viðbrugðið í okkar hóp. Það var gott að fá að koma í tjöldin þeirra, hlý og notaleg, og þar var margur kaffisopinn þeginn, og brauð með, er hinn flausturslegi leiðangur Akureyringa fór að sjá fram á matfangaskort. Verður þeirra aðstoð seint metin og fullþökkuð. Allan tímann voru þeir hinir ákjósanlegustu félagar, þeir voru vel útbúnir, enda höfðu þeir farið á fjöll sér til hressingar og skemmtunar, og grunaði engan að slík stórtíðindi mundu gerast í leiðangri þeirra.


Fagur morgunn


Við snúum okkur aftur að þessari nótt og þeim, sem eftir voru á jöklinum. Klukkan var fjögur á fimmtudagsmorguninn þegar við komum niður af jöklinum. Þegar leiðangursmenn í tjöldunum heyrðu um neyðarástand Bandaríkjamannanna og um þrekraun Þórarins Björnssonar og Þorsteins Svanlaugssonar, voru skjót handtök í tjöldunum. Fjórir Reykvíkingar lögðu þegar á jökulinn, þeim til aðstoðar. Stóðst það á endum, að við hinir skriðum í svefnpokana um fjögurleytið og þessi fjögra manna sveit lagði á fjallið. Var þá enn myrkt af nóttu, og hin leiða ísaþoka lá eins og mara á öllu. Veðurútlit var enn ótryggt, og var fararstjórinn ákveðinn í að komast eins fljótt og auðið væri burt frá jöklinum. Það er ekki gamanspaug að hafa ráð á 24 mönnum og 10 bílum á þeim slóðum á þessum tíma árs. Í huga allra voru Herðubreiðarlindir eins og heimastöðvar. Venjulega er talað um þann fagra og sérkennilega stað sem fjarlægar óbyggðir. Í okkar augum var hann heimadrögin, því að þaðan er vandalaust að komast til byggða á jeppum jafnvel þótt hann hvessi. En uppi undir Vatnajökli er mönnum og jeppum sniðinn þröngur stakkur, og Herðubreiðarlindir eru þaðan að sjá nærri því eins og Austurstræti eða Ráðhústorg.


Bandaríkjamennirnir komast í höfn


Rétt fyrir klukkan sex á fimmtudagsmorguninn er jeppahurðinni við höfuðið á mér hrundið opinni, og ég sé Þórarin Björnsson í gættinni. Hann er þreyttur en hamingjusamur. Bandaríkjamennirnir eru komnir í höfn, nær dauða en lífi, en komnir samt. Í klukkutíma drógu þeir félagar einn þeirra á sleða, en þá hresstist hann og fór að ganga. Úr því gekk ferðin greitt. Flugmennirnir amerísku fengu heita mjólk að drekka, eins og aðrir, og síðan a.m.k. klukkustundar hvíld í svefnpokum í hlýju tjaldi. Fjórir Reykvíkingar höfðu gengið á fjallið þennan morgun, sem fyrr segir. Þeir héldu áfram þangað, sem farangurinn af sleðanum lá, og drógu hann og allan farangurinn, sem tekinn hafði verið í Geysi, til tjaldanna. Komu þeir úr þeim leiðangri klukkan átta. Var þá allt komið af jöklinum, fólk og farangur, það er að segja sá farangur, sem unnt hafði verið að leggja á bakið. Var það dót áhafnarinnar, en vissulega voru ekki aðstæður til þess að ferja neitt af hinum „dýrmæta varningi“, sem útvarpinu var svo tíðrætt um, ofan af jöklinum. Verður honum áreiðanlega aldrei bjargað, og gekk brjálæði næst að ætlast til þess, að leiðangursmenn gerðu það. Vatnajökull er ekki Austurstræti, og ferð þangað upp engin „picnic“.


Sleðinn kemst heim


Fyrr er sagt frá ferð þeirra Þórarins Björnssonar og Bandaríkjamannanna. Þeir Gísli Jónasson og Jóhann Helgason hittu þá inni á jökli með sleðann, sem fyrr segir. Var ástandið þá engan veginn glæsilegt, niðdimm nótt, ísaþoka og grimmdarfrost, en Bandaríkjamennirnir uppgefnir. Var sá, sem þjakaðastur var, lagður á sleðann, og Íslendingarnir drógu hann síðan heim á leið. Sóttist ferðin seint og erfiðlega. Eftir klukkustundar hvíld tók Bandaríkjamaðurinn að hressast, en þó ekki meira en það, að Íslendingarnir máttu beita hörðu til þess að bjarga lífi hans. Má vera, að hann hafi ekki kunnað að meta hörkuna þá um nóttina, en sá tími kom, daginn eftir, að þessir menn sögðu einum rómi: „Guði sé lof fyrir, að við komum með ykkur. Við vissum aldrei, í hvaða hættu við vorum staddir.“ Munu þeir áreiðanlega muna þeim Þórarni, Gísla og Jóhanni lífgjöfina.


Farangurinn kemur til tjaldstaðar


Fjórir Reykvíkingar lögðu á jökulinn skömmu eftir klukkan fjögur um morguninn, til þess að aðstoða félaga sinn, Þórarin Björnsson og Bandaríkjamennina, og til þess að flýta fyrir björgun farangurs þess, sem skilinn hafði verið eftir um nóttina á jöklinum. Þessir menn hittu þá Þórarin á jökulbrúninni um morguninn, og voru þeir þá sjálfbjarga, en sleðinn og farangurinn voru innar á jöklinum. Héldu þeir þá áfram og náðu sleðanum og farangrinum og höfðu dregið allt til tjaldstaðar um klukkan átta. Var þá lokið sögulegri nótt. Öll áhöfnin, bandarísku flugmennirnir og fylgdarmaður þeirra, farangur sá, sem lagt hafði verið upp með frá flakinu, og svo allir „okkar menn“, voru komnir í tjaldstað. Jökullinn var að baki, en „menningin“ framundan. Björguninni var lokið, allir komnir heilu og höldnu til bílanna, og nú var næst fyrir að komast út úr úlfakreppunni sem fyrst, með því að fyrsti snjór hefði lokað alla bílana inni við jökulinn. Var það heldur lítið skemmtileg tilhugsun, svo að ekki sé meira sagt. Og matföngin á þrotum.


En allt er gott, þegar endirinn er góður, og það voru glaðir og reifir menn, sem bundu tjöld og skíði upp á jeppana á fimmtudagsmorguninn og undirbjuggu heimförina. Bandaríkjamennirnir höfðu þá sofið í klukkutíma og voru nú hinir hressustu. Voru þeir ósparir á þakklætið fyrir að leiðangurinn skyldi hafa tekið þá með. Höfði þeir enga grein gert sér fyrir því, að þeir voru staddir í bráðri lífshættu uppi á jöklinum. Þann sannleika uppgötvuðu þeir á jökulgöngunni um nóttina. Voru þessir drengir engan veginn undir það búnir að lenda í svaðilför í 1800-2000 metra hæð, þar sem tæknikunnáttan er stundum einskis nýt, en úthald, dugnaður og áræði er það eina, sem heldur líftórunni við. Ísland verður þeim áreiðanlega minnisstætt úr þessu.





Hvað gerðist uppi á jöklinum?


Hér hefir verið sagt frá leiðangrinum frá sjónarhóli manns, sem ekki komst alla leið að flakinu. En hvernig var umhorfs þar? Hvað leið leiðangri þeim, sem komst alla leið og tók fólkið með sér til byggða? Þeir menn lögðu vitaskuld á sig aðalerfiðið. Skulu þeir hér taldir: Tryggvi Þorsteinsson, skátaforingi, fararstjóri, Jón Sigurgeirsson, lögregluþjónn, frá Helluvaði, Ólafur Jónsson, framkvæmdastjóri, Vignir Guðmundsson, tollvörður, Sigurður Steindórsson, afgreiðslumaður, Þórarinn Þórhallsson, skrifstofumaður, Edvard Sigurgeirsson, ljósmyndari, Þorsteinn Svanlaugsson, bifreiðarstjóri, og Þórarinn Björnsson úr Reykjavík. Þessir menn báru hita og þunga dagsins. Af viðræðum við áhöfnina á leiðinni og umsögn þessara manna var augljóst, hvernig slysið hafði borið að höndum, og hvernig líðan áhafnarinnar hafði verið. Útvarpsfréttirnar höfðu verið þannig, að við leiðangursmennirnir héldum, að flugvélin sæti á belgnum á jöklinum og áhöfnin hefði það afskaplega „huggulegt“ þar uppi, og lægi ekkert á að bjarga henni, enda er sannast sagna, að það kapp, sem lagt var á björgun flugleiðis af þeim, sem betur máttu vita, studdi þá skoðun. Fáir leiðangursmanna munu því hafa verið viðbúnir þeim sannleika, að áhöfnin var þarna í hinni mestu lífshættu, þrátt fyrir flugvéladyn og útvarpstilkynningar. Lifir enginn lengi á þeim. Flugvélin sat ekki „huggulega“ á maganum, heldur var hún flak, sundurtætt og brotið, og skilur enginn enn, hvernig áhöfnin fór að halda lífi og þrótti í marga daga í því ömurlega braki í miklu frosti og stórhríðum. Tilkynningarnar um þá megináherzlu, sem lögð var á björgun hins „dýrmæta varnings“ sýndu, að fleiri en leiðangursmenn höfðu ekki gert sér fulla grein fyrir þeim erfiðleikum, sem þarna var við að stríða. Vitaskuld verður engu bjargað úr flakinu. Það er engin „picnic“ að fara upp undir Grímsvötn á þessum tíma árs. Dýrmætur farmur er þar einskis virði, metið í peningum, nema hægt sé að nota hann til þess að halda líftórunni í fólki. Það er sannast sagna ósmekklegt og ömurlegt, hver áherzla var lögð á þýðingu hins „dýrmæta varnings“ í útvarpi, meðan áhöfn og björgunarmenn voru enn í bráðri lífshættu og höfðu engan áhuga fyrir að halda inn í eilífðina umvafðir pelsum og vefnaðarvörum eða með sérlega fín armbandsúr eða koo-koo-klukkur, enda þótt þessi vara sé og hafi verið ófáanleg á Íslandi. Líftóran verður ekki, þegar allt kemur til alls, metin á þennan hátt. Þessi varningur er nú vafalaust kominn á kaf í snjó þar suður frá. En óséð er enn, að tilkynning sú, sem lesin var af mestum krafti í útvarpi, um bann við stuldi úr flakinu, beri verulegan árangur. Þjófnaður verður því aðeins framinn, að þjófar séu til. Og eftir er að vita, hversu margir Íslendingar meta líftóruna meira en armbandsúr og koo-koo-klukkur. Að vísu er vöruskorturinn sár og þjóðin aðþrengd af höftum og bönnum, en að menn leggi líf og limi í stóra hættu til þess eins að geta eignazt þessa hluti, á víst enginn von á nema þeir, sem aldrei hafa farið á jökul nema í flugvél, og þá í þokkalegri hæð.


Frestum dómunum!


Nú má fara að slá botn í þessa frásögn. Það er ekki hlutverk þessa blaðs að gizka á, hvers vegna Geysir hafi farizt þarna á jöklinum. Í því máli munu að sjálfsögðu fara fram réttarhöld og próf, og það sannast, sem maður skyldi ætla að allir vissu, að slíkir hlutir gerast ekki af því að menn hafi gaman af þeim eða séu léttúðugir. Menn eru oft dómfúsir, en hér hefur enginn aðstöðu til að dæma, og færi bezt á því, að allir dómar séu geymdir, það er auðvelt að dæma, en verra í að komast.


Hátíðlegt augnablik


Eftir að Geysismenn voru komnir í tjaldbúðirnar og veður hélzt gott, var enginn vafi á því, að björgunin mundi takast giftusamlega. Leiðin til flugvéla Loftleiða á söndunum var stutt, og þangað var ekið knálega. Matföng voru þá öll þrotin, og gerðu allir sér vonir um, að flugvélarnar myndu flytja einhverja úrbót í því efni. Varð það ekki, og stigu Geysismenn og Bandaríkjamenn þegar upp í flugvélarnar. Voru kveðjur þar á söndunum innilegar og alúðlegar, og mun enginn, sem þar var kvaddur, hvorki norðanmenn né sunnanmenn, auðveldlega gleyma þeirri stund. Eftir örfáar mínútur voru flugvélarnar aftur í loftinu og með þeim allir, sem bjarga þurfti. Þá datt logn og tómleiki yfir leiðangurinn, en síðan steig hver upp í sinn bíl, og framundan var Herðubreiðarhraun, og er það ærið áhyggjuefni hverjum bílstjóra, sem staddur er sunnan þess. En brátt var það að baki og Herðubreiðarlindir í hjólfarinu. Þá skeði hátíðlegur og eftirminnilegur atburður. Jepparnir aka norður sandana að Lindaá. Við aukafélagarnir erum síðastir í lestinni. Edvard lítur út um bakgluggann og sér flugvél í kjölfarinu. Við stöðvum jeppann og stökkvum út og veifum og veifum. Þarna er á ferð Dakotaflugvél Loftleiða. Flugmennirnir gefa merki með vængjum vélarinnar, að þeir hafi séð, að eftir þeim var tekið, og nú fara þeir hring yfir jeppanum okkar og henda síðan niður litlum böggli. Við hlaupum allt hvað af tekur út á sandinn og grípum böggulinn. Í honum er steinn og líka bréf til Þorsteins fararstjóra. Og nú ökum við, eins og hjól og bremsur þola og náum fararstjóranum rétt í þann mund, er hann er að leggja í erfiðustu kvísl Lindaárinnar. Hann grípur bréfið, stígur upp á jeppaþak og les bréfið í heyranda hljóði. Það er frá stjórn Loftleiða og er í senn smekkleg og falleg viðurkenning á því, sem leiðangurinn hefur afrekað. Fararstjórinn er ekki einn um það að klökkna undir lestrinum. En að honum loknum stíga menn í jeppana á ný og halda þeim ótrauðir út í kvíslina og eftir örfáar mínútur eru allir komnir yfir þann farartálma.

Ferðin hafði gengið miklu betur en á suðurleiðinni. Bréf stjórnar Loftleiða er enn í huga allra. Eftir að Lindaáin er að baki, eru engar teljandi torfærur á heimleiðinni, heldur aðeins langur vegur um sanda og grjót. Leiðangrinum er lokið. Enginn, sem tók þátt í honum, mun nokkru sinni gleyma dugnaði, harðræði og vinsemd félaganna, né heldur æðruleysi, karlmennsku og dug áhafnarinnar. Nokkrir dagar voru liðnir síðan við lögðum upp frá Akureyri, en hver sá dagur var dýrmæt endurminning, og enginn leiðangursmanna, hvorki aðalmenn né aukamenn, mundu nú vilja gleyma þessum dögum. Allir voru svefnlausir og þreyttir. En þetta er sú þreyta, sem er í fylgd með lífsgleðinni.


Vatnajökulsförin og viðkynningin við áhöfn Geysis varð til þess að auka lífsgleði og traust allra leiðangursmanna að sunnan og norðan. Þessir dagar voru stundum langir, en lífið er stutt. Þessi leiðangur verður jafnan óaðskiljanlegur hluti endurminninga þeirra, sem hafa gaman af að lifa og finnst lífið dásamlegt, jafnt í blíðu og stríðu.


Haukur Snorrason


Ljós- og prentmyndir: Allar ljósmyndir, sem birtar eru í þessu blaði gerði Edvard Sigurgeirsson, Akureyri, og hefur einkarétt á þeim. Prentmyndir gerði Ólafur Hvanndal, prentmyndagerðarmeistari, og stendur blaðið í sérstakri þakkarskuld við hann fyrir ágæta og skjóta fyrirgreiðslu. Hefur hinn aldurhnigni prentmyndagerðarmeistari að mestu sjálfur útbúið hin ágætu prentmyndamót í þetta blað.“


Heimild:


Haukur Snorrason. (1950, 24. september). Akureyringar björguðu áhöfn „Geysis“ af Vatnajökli. Dagur, bls. 1-8.

89 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page