top of page
Search
  • arnar7

Herþjónustan í Evrópu hófst á Krossastöðum

Updated: Jul 1, 2022Hugh L. Bryan var rúmlega þrítugur þegar hann kom til starfa á Íslandi á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Hann var yfirmaður í ameríska hernum og hafði um nokkurt skeið stundað herþjálfun í heimalandinu fjarri fjölskyldu og vinum áður en kom að Íslandsdvölinni. Sá dagur rann upp að þjálfuninni lauk og alvaran tók við. Kallið kom í ágústbyrjun 1942. Bryan steig upp í lest og óvissan um framhaldið var algjör. Hann vissi það eitt að sigling til Evrópu var óumflýjanleg. Með tár á hvarmi og söknuð í hjarta veifaði Bryan út um lestargluggann til Nanny eiginkonu sinnar og Margaret, fjögurra ára dóttur þeirra um það leyti sem lestin lagði af stað til New York-borgar.


Bryan lagði úr höfn frá Manhattan ásamt stórum hópi bandarískra hermanna með pólska farþegaskipinu MS Batory. Bretar nýttu skipið til að flytja hermenn á vígstöðvarnar. Bryan vissi ekki hvert ferðinni var heitið, ekki frekar en flestir aðrir farþegar eða áhafnarmeðlimir. Í huga amerísku hermannanna um borð var England líklegur áfangastaður. Þegar Batory og fylgdarskip þess sigldi framhjá Bretlandseyjum varð þeim ljóst að líklega væru þeir á leiðinni til Íslands sem svo var staðfest daginn fyrir komuna til Reykjavíkur. Næstu fjórtán mánuðina starfaði Hugh L. Bryan við herþjónustu á Íslandi. Þar af bjó hann í rúma níu mánuði í bragga á Krossastöðum í Hörgárdal.


Í apríl 1986 skráði Bryan minningar sínar úr seinni heimsstyrjöldinni niður á blað, þá 75 ára gamall. Þetta gerði hann fyrir börnin sín, barnabörn og barnabarnabörn í þeirri von að þeim fyndist sagan áhugaverð. Endurminningar hans eru nú aðgengilegar á veraldarvefnum. Sagnalist snarar þeim hluta frásagnar Bryan sem snýr að dvöl hans á Krossastöðum á árunum 1942-43 yfir á ástkæra ylhýra og miðlar til lesenda. Sagnalist gefur Hugh L. Bryan orðið.„Batory lá í höfninni í Reykjavík í tvo daga á meðan við biðum í ofvæni eftir því að komast í land. Það sem við sáum af landinu frá skipinu leit aðeins betur út og við vissum af dvöl amerískra hermanna og stórum flugvelli ekki svo langt frá. Seinni daginn lyftu Batory og breska fylgdarskipið akkerum, sigldu á brott og tóku stefnuna norður. Ég hugsaði með mér, „Hvað núna, hvert annað er hægt að fara?“ Við fengum úr því skorið fljótlega. Allt eftimiðdegið, um nóttina og morguninn eftir sigldum við meðfram vesturströnd Íslands og svo nálægt að við sáum nánast alltaf til lands. Við sigldum norður fyrir Vestfirði og stefndum í austurátt, meðfram norðurströndinni. Heimskautsbaugurinn var aðeins nokkrum mílum norðan við okkur. Að lokum komum við að mynni Eyjafjarðar sem er langur og þröngur fjörður við miðju norðurstrandarinnar. Við beygðum til suðurs, sigldum u.þ.b. 20 mílur inn fjörðinn og slepptum akkerum við litla bæinn Akureyri. Ferðalag okkar var loksins á enda. Akureyri leit út fyrir að vera að svipaðri stærð og Lamar S.C. [lítill bær í Suður-Karólínu] en við komumst að því síðar að bærinn væri annar stærsti bær á Íslandi. Þarna höfðum við verið um borð í Batory í þrjár vikur. Þannig endaði fyrsta sigling mín á Atlantshafinu.Þegar við tókum upp sjónaukana okkar sáum við breska hermenn og breska Bedford-trukka við höfnina svo við vissum að hið minnsta einhverjir í bænum reiknuðu með komu okkar. Sherbourne ofursti og nokkrir úr herdeildinni fóru á undan í land til að kanna aðstæður. Þegar ofurstinn kom til baka um borð í skipið fengum við þær fréttir að við værum fyrstu amerísku hermennirnir á öllu norðanverðu landinu og að okkur væri ætlað að aðstoða stórskotalið York- og Lancaster-herdeilda breska hersins. Þegar þarna var komið sögu voru þessir bresku hermenn sem við vorum nú að koma til móts við á Akureyri, búnir að leggja sitt af mörkum við að tryggja öryggi meginhluta Eyjafjarðar og það í litlum hópum vítt og breitt um fjörðinn. Við höfðum tekið eftir sumum af braggaþyrpingunum þeirra við ströndina þegar skipið sigldi inn fjörðinn. Hermenn York- og Lancaster-herdeildanna voru sendir frá Narvik í Noregi eftir misheppnaða tilraun Breta við að flæma Þjóðverja á brott. Þaðan fóru þeir til Akureyrar og höfðu dvalist þar síðan og í nágrenni bæjarins. Þeir áttu að fara aftur til Englands með Batory, skipinu sem flutti okkur til Akureyrar. Þeir voru í sjöunda himni yfir því að sjá okkur koma og við fengum konunglegar móttökur þegar við gengum í land á Akureyri. Við lærðum hvernig breskir hermenn tjá gleði sína og ánægju, með því að stappa brosandi niður fótum og heilsa með kröftugu handabandi. Við áttuðum okkur líka á – og það kom okkur á óvart – að farartækin okkar og þungavopn, sem við höfðum gengið svo vel frá áður en við lögðum af stað í siglinguna, voru bara alls ekkert um borð í Batory heldur höfðu endað í öðru skipi í Englandi. Í staðinn fengum við fyrirmæli um að taka við fararskjótum og vopnum York og Lancaster- herdeildanna sem stóð til að yrðu eftir þegar þær yfirgæfu landið. Við héldum þó rifflunum okkar, skammbyssum og hnífum.Eftir að hafa fengið allar nauðsynlegar upplýsingar var okkur ekkert að vanbúnaði að fara frá borði. En þetta var ekki svo einfalt. Batory var of stórt fyrir höfnina á Akureyri svo við þurftum að ferja allan farangur og mannskap í land. Ég fékk það hlutverk ásamt Hovis að stjórna aðgerðum. Hovis fór á undan til að meta aðstæður, útvega pramma og fiskibáta til að ferja á milli. Ég varð eftir um borð til að stýra umferðinni frá skipinu. Í miðjum klíðum kom major Jeter sem hefur líklega talið sig þurfa að koma eitthvað að málum á meðan á þessu stóð því ég man að hann gekk upp að mér og sagði; „Farminn frá borði.“ Síðan snéri hann sér við og gekk í burtu. Ég veit ekki af hverju hann sagði þetta í ljósi þess að báðir höfðum við hvorki reynslu né nokkra hugmynd um hvernig ætti að afferma skip, fyrir utan það sem við höfðum séð á myndum. Hvað þá á slíku risaskipi eins og Batory. Ég lærði þá allavega eitt á þessu augnabliki. Ef þú vilt fá einhverju áorkað, segðu það þá bara. Ég hef meira að segja notfært mér þetta í seinni tíð. […]


Það tók allan seinni hluta dagsins og fram á nóttina að afferma skipið og flytja kostinn í aðal bækistöðvar Bretanna í útjaðri bæjarins. Næst var að flokka allt og keyra með varninginn í u.þ.b. þrjátíu ólík braggahverfi með sérkennileg nöfn sem Bretarnir báru ábyrgð á svo sem Bragholt, Sugar Beer, Fagriskogur, Pity me o s.frv. Sum braggahverfin voru nálægt afskekktum sveitabæjum og fengu nöfn fólksins sem bjó á þeim. Önnur nöfn báru breskum húmor gott vitni. Erfitt var að bera þau fram, hvað þá stafa þau. Ég veit ekki af hverju en við ákváðum að halda í þessi nöfn. Kannski var það dæmi um amerískan húmor. Eina ástæðan fyrir því að man hvernig á að stafa þessi skrítnu nöfn eru gömul skjöl sem ég fann.


Bretarnir voru mjög duglegir að útvega okkur bílstjóra og leiðsögumenn og seint á öðrum degi dvalarinnar höfðum við komið okkur fyrir í bröggunum og þeir um borð í Batory. Aðeins átti eftir að halda stutta kveðjuhátíð fyrir þá og ganga frá nokkrum lausum endum við yfirtökuna á bresku bröggunum, tækjum þeirra og tólum. Batory sigldi til Englands og við vorum skildir eftir á þessum einangraða stað.


[…]


Við tókum við kampi sem gegndi hlutverki aðal höfuðstöðva bresku Hallamshire York og Lancaster- herdeildanna sem var stærri og betur tækjum búinn en sumir aðrir kampar á svæðinu. Kampurinn okkar hét Krossastaðir (Kros-ah-starter). Hann var staðsettur u.þ.b. 12 mílum norðan við Akureyri, á suðurbakka Hörgár sem rennur í Eyjafjörð úr vestri. Þessi á rann í gegnum þröngan dal með há og brött fjöll beggja megin. Áin var kannski 45 metra breið eða svo og rann rétt hjá kampinum okkar, kristaltær og ísköld. Áin var straumhörð og mikið grjót var á árbakkanum og á botni hennar. Hann var alveg einstaklega friðsæll, bjartur og sólríkur, dagurinn þegar ég leit dalinn fyrst augum. Þessi dagur var ólýsanlega fallegur. Himinninn var svo bjartur að hann virkaði sem ósýnilegur og manni fannst sem fjarlæg fjöllin væru rétt í seilingarfjarlægð, eins og hægt væri að snerta þau. Dalurinn tók þannig vel á móti okkur þessa fyrstu daga. Við áttum eftir að hugsa til fyrstu daganna með söknuði þegar fór að dimma næstu mánuðina á eftir með hvassviðri, rigningu, snjókomu, klökum og löngum vetrarnóttum. Við komumst fljótlega að því að Ísland var land öfganna.


Lítið lyfjaglas og blekbytta er meðal gripa sem Bretar skildu eftir í kampinum á Krossastöðum í Hörgárdal þegar Hugh L. Bryan og félagar hans í ameríska setuliðinu tóku við honum haustið 1942. Eins og sjá má á myndinni er ennþá innihald í glerflöskunum. Þær eru dæmi um gripi frá setuliðinu sem Varðveislumenn minjanna hafa fundið á Krossastöðum og tekið til varðveislu.

Kannski hafið þið áhuga á að vita hvernig kampurinn okkar leit út, fríðindin sem við höfðum eða höfðum ekki og yfirhöfuð hvernig okkar daglega lífi var háttað. Bretarnir höfðu reist bragga (Nissen huts) til að búa í, með eldunaraðstöðu og matsal og sem birgðageymslur. Höfuðstöðvar deildarinnar minnar voru röð bragga, hlið við hlið og við vorum með einn mjög stóran bragga fyrir skemmtanir og kirkjuhald. Braggarnir okkar voru gerðir úr bognum málmplötum sem voru festar við hálfhringlaga stálramma sem saman myndaði bogalaga þök með fram- og afturhliðum úr tré sem á voru dyr og gluggar. Sumir bragganna höfðu kvisti með gluggum á miðjum langhliðunum til að fá birtu og ferskt loft inn. Braggarnir voru klæddir að innan með fimm sentimetra þykkri einangrun. Braggarnir voru í laginu eins og niðursuðudósir sem búið var að skera í tvennt á þverveginn. Þeir voru sérstaklega heppilegir fyrir veðráttuna á Íslandi, hvassviðri og snjókomu vegna minni vindmótstöðu og vegna þess að snjórinn rann auðveldlega af. Grjóti og sandpokum var hlaðið upp í kringum braggana til að styrkja þá enn frekar fyrir hvössum vindi. Við vorum með hringlaga kamínur til að hita upp braggana. Þær litu út eins og tromma með strompi sem lá upp í gegnum þakið. Okkur tókst að halda á okkur hita og halda þægilegu hitastigi í bröggunum þrátt fyrir mikinn kulda úti. Seinna keypti ég mér gæru til að vefja utan um fæturna á næturnar. Stundum kom ég dagblöðum fyrir undir teppinu til að halda betur hita á mér. Þetta virkaði alveg ágætlega.


Í einum bragganum var meðalstór rafall sem gaf okkur rafmagn. Bragginn sem var umvafinn gaddavír, var tæpum 150 metrum frá kampinum okkar svo hann truflaði síður útvarpsútsendingar. Vatn fengum við úr litlum fjallalæk sem rann niður hlíðina í gegnum braggahverfið. Litlu ofar var stífla í læknum sem myndaði litla tjörn með tæplega tveggja metra dýpi. Frá stíflunni lá fjögurra tommu rör neðanjarðar niður í bragga. Vatnið rann í gegnum rörið þar sem því var safnað saman í tanka sem voru inn í bragganum. Hallinn frá stíflunni var nægur til að tryggja gott rennsli, svona eins og skrúfað væri frá krana á stórum vatnstanki. Við gátum meira að segja hitað vatn í katli svo við gætum farið í sturtu. Þó vatnið ætti það til að frjósa í stíflunni, höfðum við alltaf rennandi vatn frá uppsprettunni, frá botni tjarnarinnar. En þar með eru öll þægindi í tengslum við pípulagnir upptalin, því miður. Allt sem snéri að sæmilegri salernisaðstöðu, rotþróm og þess háttar var út úr myndinni vegna samsetningar jarðvegarins og frosts í jörðu á veturna. Í raun var loftbor eina leiðin við að grafa í jörðu yfir vetrartímann. Svo salernin okkar voru búin til úr grjóti með þaki úr málmplötum og tvær, fjórar og sex holur með fötum í botninum. Að aftan voru tréhlerar með lömum sem hægt var að lyfta upp til að fjarlægja föturnar. Þið getið rétt ímyndað ykkur kalt loftið sem lék um mann og snjóinn allt um kring. Enda stöldruðu menn stutt við á kamrinum. Þetta varð til þess að margir fóru að kvarta undan hægðatregðu þar til heilbrigðisstarfsmennirnir okkar komu með einfalda lausn. Þeir lögðu til að færanlegum hitablásurum sem gengju fyrir steinolíu yrði komið fyrir inn í kömrunum. Eftir það varð þessi hluti daglegs lífs örlítið bærilegri.Bretarnir höfðu komið gaddavír fyrir allt í kringum kampana. Þetta voru rúllur, rúmur metri í þvermál af gaddavír sem hélt sínu hringlaga formi og stóð uppréttur þó dreift væri úr honum. Áltunnum fullum af grjóti, sem skrölti í, var stillt upp með reglulegu millibili. Reyndar komu einu hljóðin sem við heyrðum frá rollum og hestum sem áttu leið hjá um nótt í miklum kulda. Gaddavírinn veitti ákveðna öryggistilfinningu þegar var snjóþungt og slóðin á milli bragganna hvarf í snjónum. Við vissum að við máttum ekki fara langt frá bröggunum í snjóbyl og myrkri. Ég man eftir einu skipti yfir hávetur þegar ég ætlaði að ganga yfir í braggann þar sem matsalurinn var til að borða kvöldmatinn. Ég fann ekki slóðina svo ég borðaði bara eina dós af baunum sem ég lumaði á og fór svo í háttinn.


Ykkur gæti fundist það áhugavert en þegar ég kom í fyrsta skipti inn í hinar nýju vistarverur, fann ég merki York og Lancaster- herdeildanna á einni hurðinni. Merkið var handmálað af breskum hermanni. Á merkinu var tígrisdýr með hvíta rós undir kórónu og inn í rósinni miðri var önnur smærri rauð rós og blómsveigur allt um kring. Mér skilst að merkið – ekki málverkið sjálft – eigi rætur að rekja aftur til ensku borgarastyrjaldarinnar 1455-1485, til svokallaðra Rósastríða (War of the Roses). […] Ég tók málverkið af hurðinni og geymdi. Mér hefur tekist að varðveita það og hef það nú upp á vegg til sýnis í gestastofunni okkar Nanny.


[…]Steypt undirstaða sem Varðveislumenn minjanna fundu á braggasvæði setuliðsins á Krossastöðum. Komið hafa fram tilgátur um notagildi hellunnar svo sem undirstaða fyrir kamínu eða vélbyssu.

Nú jæja, áfram með söguna. Þegar Bretarnir voru farnir gerðum við úttekt á því sem var til staðar og reyndum að útbúa okkur einhvers konar heimili. Sem yfirmaður aðgerða á svæðinu var ég orðinn nokkuð vel upplýstur um stöðuna eftir að hafa fengið ítarlegar upplýsingar frá breskum félaga mínum áður en hann fór. Allir stóru trukkarnir okkar voru þriggja tonna af gerðinni Bedford og smærri trukkar og bílar voru auðvitað af gerðinni Hillman með stýrið röngu megin, í okkar huga allavega. Vélbyssurnar okkar voru vatnskældar Vickers-vélbyssur sem skutu .303 kalibera skotum en ekki .30 kalibera eins og við notuðum í M-1 rifflana okkar. Stórskotaliðið okkar notaðist við breskar „25 pounder field gun“. Blessunarlega skildu Bretarnir eftir skýringarmyndir og leiðarvísa fyrir okkur. Við höfðum alveg nóg að gera við að læra á nýju græjurnar okkar og stundum urðu óvæntar uppákomur. Nokkrum dögum eftir að við komum í Krossastaði, hafði yfirmaður herdeildarinnar á Skógum samband. Skógar voru næsti kampur við okkar. Þegar ég svaraði honum spurði hann mig hvað hann ætti að gera við alla þessa litlu hesta! Bretunum hafði láðst að segja okkur frá öllum hestunum þarna á svæðinu og þeir höfðu algjörlega farið framhjá mér þegar ég tók stöðuna á birgðahaldinu. Hvað um það. Ég fór að Skógum og fann tíu litla faxprúða hesta í girðingu nálægt bragga sem nýttur var sem hlaða. Þá kom í ljós að Bretarnir höfðu nýtt þá sem burðardýr, til að bera skotfærakassa og annað og skilið eftir fóður, beisli, hnakka, hrossateppi og fleira. Þeim þótti hestarnir henta vel fyrir flutninga við þær erfiðu aðstæður sem voru á Íslandi. Við héldum hrossunum en höfðum lítil not fyrir þau, fyrir utan að nýta þau til afþreyingar og sem gæludýr. Ég hef oft velt því fyrir mér hvað varð um þau eftir að við fórum. Ég vona að þau hafi ekki verið étin.


Eitt af verkefnum okkar á Íslandi var að tryggja öryggi Eyjafjarðar (I-ja-fee-ode) sem viðkomustað fyrir breska flotann sem gerði út frá Scapa-flóa á meðan hann hafði eftirlit með Norður-Atlantshafinu. Eitt aðal markmiðið með þessum eftirlitssiglingum Bretanna var að koma í veg fyrir að Tirpitz og önnur öflugustu skip þýska flotans sigldu úr höfn í Noregi og annars staðar og gerðu áhlaup á siglingar bandamanna. Til að undirbúa þetta verkefni okkar fórum við í endurbætur á veginum sem Bretar höfðu lagt upp fjallið fyrir aftan kampinn okkar og bjuggum til ný vélbyssustæði hátt upp í hlíðinni þar sem útsýni var gott yfir dalinn. Líkurnar á að við næðum að skjóta niður þýska flugvél með Vickers-vélbyssunum okkar voru litlar en þær voru það eina sem við höfðum. Með því að vera svona hátt upp í hlíðinni, vissum við að við hefðum möguleika ef flugvélarnar tækju stefnuna niður í átt að dalnum. Allavega gætum við gert skipunum sem voru í höfn á Akureyri viðvart ef árás var yfirvofandi. Ef viðvörunarflauturnar færu af stað, gekk skipulagið út á það að bruna upp hlíðina á trukkunum með vélbyssurnar á pallinum og koma þeim fyrir á sínum stað. En við lentum í vandræðum með þetta strax á fyrstu æfingunni. Byssustæðin og sandpokarnir í kringum þau höfðu fyllst af snjó sem svo hafði bráðnað og loks frosið. Við þurftum því að koma vélbyssunum fyrir á berangri. Þið skuluð hafa í huga að á þessum tímapunkti höfðum við tveggja ára reynslu af hernaðaræfingum í suðurhluta Bandaríkjanna þar sem lítinn sem engan snjó var að sjá. Við þurftum því að læra ýmislegt upp á nýtt.


Við vorum ekki ofarlega í forgangsröðinni þegar kom að vopnum og öðrum útbúnaði vegna þess að við vorum á frekar afskekktum stað og vorum einangraðir. Okkur var úthlutað ákveðnum búnaði og við þurftum einfaldlega að gera okkur hann að góðu. Ég man að rétt fyrir utan nyrsta kamp fjarðarins útbjuggum við byssustæði með sandpokum. Við komum fyrir símastaurum hjá pokunum og þaðan niður að sjó svo það liti út eins og þar væru strandvarnir. Við vonuðumst til að þetta myndi villa um fyrir Þjóðverjunum ef könnunarflugvélar þeirra kæmu til að taka loftmyndir af svæðinu. Hermennirnir okkar þrömmuðu á milli byssustæða í snjónum, fram og til baka einu sinni á dag svo það liti út sem alltaf væru verðir við „byssurnar“. Við komumst aldrei að því hvort okkur hafi tekist að plata Þjóðverjana. En flugvélar þeirra flugu sannarlega yfir okkur og við gerðum ráð fyrir því að þeir væru að taka myndir. Vélarnar okkar tóku nokkrar myndir og af þeim að dæma leit þetta allt nokkuð raunverulega út hjá okkur, svo kannski var þetta ekki tímasóun hjá okkur eftir allt saman. Við fengum tvær 90 millimetra loftvarnabyssur (90 millimeter anti-aircraft guns) rétt áður en við fórum. En flugvélarnar flugu hærra en þær drógu og skotgetan var takmörkuð. Tvær flugvélar frá okkur náðu að skjóta niður þýska vél rétt úti fyrir ströndinni. Flotinn náði að bjarga sjö manns úr vélinni. Þetta voru einu Þjóðverjarnir sem við sáum allan tímann sem við vorum á Íslandi. Flugherinn reisti lítinn flugvöll í sunnanverðum firðinum þar sem hafa líklega verið sex orrustuflugvélar staðsettar. Vegna erfiðra aðstæðna var brautin mjög stutt þar sem annar endi hennar var við háan klett hjá á sem rann þar í gegn. Flugvélarnar þurfti að tjúnna upp, ná upp eins miklum hraða og mögulegt var og hefja þær til lofts við enda brautarinnar, svipað og flugvélar sem fara af stað á flugmóðurskipi. Ungu flugmennirnir höfðu sérstaklega gaman af því að fljúga nálægt okkur þegar við vorum að keyra og gera okkur bilt við með hávaða og látum þegar þeir flugu yfir. Þeir máttu þetta auðvitað ekki en þeir vissu að við myndum aldrei tilkynna þetta til yfirstjórnar.


Við fengum fyrstu heimsóknina frá breska flotanum um miðjan október 1942. Þá gafst okkur tækifæri til að kynnast í návígi hinu mikla flotaveldi bandamanna okkar. Það var tilkomumikil sjón. Flotinn samanstóð af fjórum orrustuskipum. H.M.S King George V, Ansul, Howie og eitt enn sem ég man ekki nafnið á. Það voru stór og minni herskip[heavy and light cruisers], eitt flugmóðurskip og þónokkrir tundurspillar. Þar sem dýpi fjarðarins var mikið, sigldu orrustuskipin og sum herskipin alla leið inn fjörðinn og köstuðu akkerum rétt hjá Akureyri. Á meðan lúrðu flugmóðurskipið og tundurspillarnir við mynni fjarðarins og fylgdust með mögulegum ferðum óvinarins. Sumir flotaforingjarnir og sjóliðar komu í land á Akureyri og þá hittum við starfsmenn breska flotans í fyrsta skipti, augliti til auglitis. Það sem hreif mig mest var hversu kátir og faglegir þeir voru. Þeir leystu öll sín verkefni á skilvirkan og árangursríkan hátt og nýttu tíma sinn vel. Þeir höfðu verið í stríði í þrjú ár og virkuðu á mig sem fólk sem vissi nákvæmlega hvað það var að gera. Flotinn var á Akureyri í tvo daga en lagði úr höfn að morgni þess þriðja. Manni fannst Eyjafjörður hálf tómlegur án breska flotans.


Þar sem Krossastaðakampurinn var við sveitabæ sem hafði sama nafn, þá var býsna stór fjárrétt í dalnum, nálægt kampinum. Réttin var úr grjóti og veggirnir voru rúmur metri á hæð. Henni var skipt í nokkur aðskilin hólf sem höfðu sérstakan inn- og útgang. Í nóvember, áður en fór að snjóa að ráði, voru íslensku fjölskyldurnar í dalnum með einhvers konar söfnun á sauðfénu í því skyni að koma því á sinn stað fyrir veturinn. Við fengum sæti á pöllunum fyrir framan og fylgdumst með þessum aðgerðum bændanna af miklum áhuga. Bæði karlar og konur komu ríðandi á samkomuna á litlu hestunum sínum, klædd buxum og gúmmístígvélum. Með aðstoð fjárhundanna ráku karlar jafnt sem konur rollurnar úr fjallinu í réttir þar sem þeim var skipt niður í sérstök hólf sem tilheyrði ákveðnum bændum. Konurnar virtust vinna verkin alveg jafn vel og karlarnir, jafnvel betur. Hestarnir gerðu sitt líka og vissu hvað var ætlast til af þeim. Íslenski hesturinn er hörð og eiginlega ótrúleg skepna með sítt fax, stutta fætur og mikið jafnaðargeð. Íslendingarnir nýttu þá á marga vegu. Til að komast á milli staða, sem burðardýr, hrossakjötið og aðrar afurðir. Ég var aldrei hrifinn af hugmyndinni um að borða hross en prófaði það einu sinni. Það var bragðsterkara en naut og ekki svo slæmt.


Ég hafði aldrei áður séð fjárhunda að störfum og varð mjög hissa þegar ég sá hvað þeir áorkuðu miklu. Á stundum minntu þeir á veiðihunda sem reiknuðu út hverja hreyfingu bráðarinnar. Íslensku kindurnar voru nokkuð frábrugðnar kindum annars staðar þegar kemur að ullinni, hún er ekki krulluð heldur eru hárin löng eins og á hestunum. Ullin er nýtt, húðin og kjötið.


Í Hörgá var hægt að veiða lax. Þar sem ég hef alltaf haft gaman af veiði, ákvað ég að fá lánaða flugustöng til að láta reyna á veiðihæfileika mína. Ég fékk stöngina lánaða hjá vini mínum en hann hafði fengið hana senda frá fjölskyldunni. Ég man sérstaklega eftir einum vænum laxi sem ég kom auga á þegar ég stóð á brúnni. Hann virtist alltaf svamla um á sama staðnum við brúna svo ég taldi möguleika mína góða. Því miður reyndist laxinn mun klárari en veiðimaðurinn. Það kæmi mér ekki á óvart ef afkomendur laxins væru þarna ennþá svamlandi á sama stað og hann við brúna. Það var svolítið kalt í fyrsta veiðitúrnum og hann tók reyndar snöggan endi þegar snjó tók að blása um allt í hvert skipti sem ég sveiflaði stönginni. Ég ákvað að það væri kominn tími til að hætta þegar fingurnir á mér voru orðnir svo dofnir að ég fann ekki fyrir veiðistönginni þegar ég hélt utan um hana. Ég reyndi nokkrum sinnum í viðbót en náði aldrei tökum á silungsveiðinni.

Í september 1942 kom flutningaskip inn Eyjafjörð með ameríska lækna og hjúkrunarkonur til að starfa við breska herspítalann við suðurenda fjarðarins. Um borð voru einnig verkfræðingar, fjarskiptafræðingar á vegum hersins (Signal Corps) og aðstoðarsveitir (Service Troops). Fljótlega varð Akureyri eins og herstöð sem iðaði af lífi með verslun hersins (Post Exchange), birgðageymslur og hvaðeina. Þar sem herdeildin okkar var staðsett nálægt bænum rétt eins og aðrar deildir sem voru með kampa víða í firðinum, þá heimsóttum við Akureyri af og til. Maður fékk jafnvel á tilfinninguna að við værum að „fara í bæinn“ og það hjálpaði manni að takast á við einangrunina. Það kom mér á óvart hvað birgðahald var gott í sumum verslunum á Íslandi m.t.t. vélbúnaðar, verkfæra, ljósa o.s.frv. Þessa hluti gátum við keypt til að gera okkur lífið bærilegra. Jafnvel mátti finna silfursmið með verslun þar sem hægt var að kaupa fallega handunnin armbönd og litla verksmiðju þar sem skinn voru sútuð – skinn af selum, kindum og hrossum. Við lentum ekki í miklum vandræðum með að fá það sem okkur vantaði í verslununum því margir Íslendingar gátu stautað svolitla ensku. Á meðan ég var á Norðurlandi, keypti ég handunnið silfurarmband, gæruskinn og vasabók úr selskinni fyrir Nanny. Gjaldmiðillinn var króna. […] Mér fannst verðlagið sanngjarnt ef tekið er tillit til þess að vörurnar þurftu að fara um langan veg áður en þeim var stillt upp í hillum verslana á Íslandi. Þetta var fyrsti af mörgum ólíkum gjaldmiðlum sem við þurftum að venjast í þeim löndum sem við vorum sendir til.

Dagarnir urðu sífellt styttri í lok árs 1942 þegar desember nálgaðist með tilheyrandi jólahaldi. Þetta kallaði á grundvallarbreytingu á okkar háttum. Sólin kom upp klukkan 11:00, settist klukkan 15:00 og fyrsti snjórinn og hvassviðrið kom. Það var raunveruleg áskorun að finna út hvernig ætti að takast á við þetta mikla myrkur. Þó við reyndum að sinna æfingum og skila okkar framlagi sem hermenn, þá þurftum við af illri nauðsyn að dúsa mikið inni. Ætli við höfum ekki áttað okkur á því þarna hvað raunverulega felst í orðinu innilokunarkennd.


Þrátt fyrir þetta var andinn í hópnum furðulega góður. Ég býst við að það sem öðru fremur auðveldaði okkur að takast á við erfiðleikana hafi verið hversu allt var svo nýtt fyrir okkur. Við vorum alltaf á tánum. Okkur var skylt að bera skotfæri og skotvopn öllum stundum sem og við gerðum. Möguleikinn á innrás herskipa var fjarlægur en fyrir utan stöku þýskar njósnaflugvélar urðum við ekkert varir við óvininn. Ég býst við að sá litli möguleiki sem þó var til staðar á átökum hafi haldið okkur á tánum og verið sá drifkraftur sem við þurftum til að halda góða skapinu.


Til þæginda fyrir okkur var okkur útvegaður útivistarfatnaður. Við vorum í vatnsheldri loðúlpu. Hún náði niður fyrir hné og var með hettu. Við klæddumst langerma bol úr ull og vorum í stígvélum með gúmmíbotni og leðri að ofan sem hentuðu vel í snjó og með ullarhúfu og þunna húfu innanundir, sem við notuðum stundum. Fatnaðurinn hélt á okkur hita svo okkur leið ágætlega. Nanny prjónaði langan ullartrefil fyrir mig sem ég vafði stundum um mittið ef kuldinn var sérstaklega mikill. Svo klæddumst við auðvitað allir öflugum ullarnærfatnaði. Reyndar er Ísland ekki eins kalt og nafnið gefur til kynna vegna Golfstraumsins sem streymir allt um kring og ber hita með sér úr suðri. Miklar frosthörkur eru ekki algengar. En rakastigið er hátt svo kuldinn næðir og smýgur í gegnum allt, sérstaklega þegar hvessir eitthvað að ráði.


Við reyndum að gera okkur glaðan dag eins mikið og kostur var fyrstu jólin okkar í burtu frá fjölskyldunni. Hún kom mér skemmtilega á óvart öll hugvitssemin og sköpunargáfan hjá sumum félögum mínum þegar kom að því að búa til skraut úr pappír og áldósum. Það voru náttúrulega engin tré. Ég man eftir einum kampi þar sem mennirnir bjuggu til fallegt jólatré úr litlum tréstubbum. Þeir klæddu það með gaddavír sem þeir klipptu til í keilulaga form og hengdu svo skraut úr dagblöðum á vírinn. Á toppi trésins var tinstjarna sem hafði verið búin til úr niðursuðudós. Svona föndur ásamt svolítilli jólatónlist, gjöfum frá fjölskyldunni og góðum mat gerðu jólin bara nokkuð bærileg. Ég býst við að jólin séu erfiðasti tíminn fyrir hermenn til að vera í burtu frá ástvinum. Ég saknaði Nanny og Margaret litlu mjög mikið. Ég fór stundum í nokkurs konar hlutverkaleiki þar sem ég ímyndaði mér að þær væru hjá mér. Ég sá fyrir mér okkur saman við jólatréð og við borðið með jólamatinn fyrir framan okkur. Þá fannst mér eitt augnablik eins og ég væri ekki svo langt í burtu frá þeim. Hver einustu jól sannfærðum við hvern annan að næstu jól yrðum við komnir heim og það gaf okkur ástæðu til að hlakka til þess sem framundan var. Í dag er ég ánægður yfir því að við skyldum ekki vita þá að þrjár jólahátíðir áttu eftir að líða áður en við komumst aftur heim.


Fyrstu vikur og mánuðir ársins 1943 liðu hægt. Við héldum uppteknum hætti við að hafa eitthvað fyrir stafni og halda okkur í formi á meðan dagarnir voru stuttir og næturnar langar. Okkur fannst þetta ákaflega undarlegt allt saman. Stundum gerðist það í vonskuveðri yfir vetrartímann að vegirnir lokuðust algjörlega vegna fannfergis. Ég man sérstaklega eftir einni nóttu þegar snjóaði svo mikið að bragginn okkar var nánast alveg hulinn snjó. Þegar við opnuðum dyrnar um morguninn náði snjórinn upp að bringu svo við þurftum að grafa okkur út. Bragganum mínum var skipt í tvo hluta. Ég deildi helming annars hlutans með kapteini Corcoran en hann var [adjutant] herdeildarinnar. Eina nóttina sátum við í vistarverunum okkar að lesa. Það var ískalt. Allt í einu kom högg á dyrnar. Corcoran stóð á fætur til að kanna hvers kyns var. Hann opnaði aðeins litla rifu til að hleypa ekki kuldanum inn en í því kom þrýstingur á dyrnar og hann hrökklaðist til baka. Inn í braggann kom lítill og loðinn íslenskur hestur. Við máttum hafa okkur alla við þegar við reyndum að ýta honum út. Að lokum náðum við að koma honum út og í kveðjuskyni fékk hann skell á afturhlutann. Okkur líkaði það samt afar illa að reka litla greyið út í snjóinn en á móti kemur að við vorum ekki á þeim buxunum að deila vistarverum okkar með hrossi. Sem minnir mig á nokkurs konar innanhússbrandara sem við gripum stundum til og hljómaði einhvern veginn svona. „Það er svo einmanalegt hér að eftir fyrstu sex mánuðina ferðu að ræða við rollurnar. Eftir næstu sex mánuði fara þær að svara þér. Eftir það ferðu að hlusta á það sem þær hafa að segja.“ Ég man líka eftir því að í næstum heilan mánuð sáum við aldrei til sólar. Það var vegna þess að kampurinn var í svo djúpum dal og vegna þess að sólin var svo lágt á lofti á þeim tíma að jafnvel á björtum dögum náði hún aldrei að rísa upp fyrir fjöllin í dalnum.


Ég man eftir því eitt síðdegið þegar ég fór til Akureyrar með einum herlækninum okkar. Við þurftum að sinna ákveðnu erindi í aðalstöðvunum okkar. Þetta var seint að deginum og orðið dimmt. Við höfðum vonast til að fá kvöldmat þar áður en við snérum til baka. Það var snjór á vegum þegar við lögðum af stað en ekki svo erfið færð. Eftir u.þ.b. 20 mínútur lentum við hins vegar í mikilli stórhríð. Það var ekki hvasst en mikill snjókoma og stór snjókorn. Þegar maður keyrir við slíkar aðstæður er eins og snjókornin lendi beint á framrúðunni þ.e. lárétt en ekki lóðrétt niður á jörðina. Við þessar aðstæður er erfitt að sjá veginn. Við vorum með ljósin á. Allt í einu sáum við hjólför eftir lítið ökutæki á veginum fyrir framan okkur. Við ákváðum að hægja ferðina og keyra varlega. Þegar hjólförin hurfu í vegarkantinum, námum við staðar til að kanna hvort við sæjum einhver ummerki um mannaferðir. Þá sáum við að einn af þeim fáu amerísku jeppum sem tilheyrðu viðgerðarmönnunum okkar hafði farið út af veginum og lent á hliðinni. Ökumaður bifreiðarinnar, sem var einn, hafði fest annan fótinn undir henni. Þegar við nálguðumst hann varð okkur ljóst að hann var með meðvitund og mjög kvalinn. Félagi minn, læknirinn, sá strax að maðurinn var fótbrotinn. Hættan á þessum tímapunkti var sú að hann færi í lost vegna kuldans og vegna þess að við höfðum engin tök á því að lyfta jeppanum þar sem hann var allt of þungur. Blessunarlega vorum við með teppi í bílnum okkar sem við notuðum til að halda hita á manninum. Því næst skipuðum við bílstjóranum okkar að aka að næsta kampi til að óska eftir aðstoð og til að sækja börur, lyf og þess háttar. Það eina sem við gátum gert var að bíða og reyna að hughreysta ökumanninn og fullvissa hann um að við myndum ná honum undan bílnum fljótlega og koma honum í skjól. Fljótlega kom ökumaðurinn okkar til baka með hóp aðstoðarmanna á trukki til að lyfta jeppanum. Læknirinn gaf hinum slasaða sprautu til að lina þjáningar hans og setti á hann spelku. Við vöfðum utan um hann teppi, lögðum hann á börur og fluttum hann yfir í næsta kamp sem var aðeins tveimur til þremur kílómetrum neðan við veginn. Ég hef oft hugsað til þess hversu heppilegt það var að við skyldum koma þarna að áður en hjólförin fóru undir snjó og að ferðafélagi minn skyldi vera læknir. Guð almáttugur vakti greinilega yfir okkur öllum þetta kvöld.Við nutum þess oft á fallegum, kyrrlátum kvöldum að fylgjast með skærri ljósasýningu norðurljósanna en þau ganga einnig undir nafninu Aurora Borealis. Þetta eru geislar eða rafeindir frá sólu sem rekast á lofttegundir frá gufuhvolfi jarðar við pólana. Við það verður breyting á hleðslu rafeindanna þannig að himinninn glóir rétt eins og flúrljós. Þetta er mikið sjónarspil. Stundum minnir þetta á glitrandi borða sem flöktir á himninum og gefur frá sér græn, gul og stundum rauð ljós. Þetta var okkur öllum allt saman mjög framandi.


Sem betur fer vorum við með nokkrar sýningarvélar til að sýna kvikmyndir og töluvert magn að kvikmyndum sem voru látnar ganga á milli kampa. Sýningarnar hjálpuðu til við að stytta okkur stundirnar á löngum vetrarnóttum. Heilt yfir fullnægði maturinn þörfum okkar og hann var bragðgóður en við urðum þreyttir á eggjum og mjólk í duftformi og bixímat á morgnana.


Þegar Hörgá lagði, fengum við skíði send og skauta frá Special Services [the entertainment branch of the American military] sem bæði foringjar og óbreyttir hermenn nýttu sér. Ég lærði á skauta og skíði en það var þó enginn afgangur af því. Ökklarnir þoldu illa skautana og ég fór mjög hægt yfir á skíðunum þannig að það eru kannski ýkjur að segja að ég hafi lært þetta.


Við þurftum að fara varlega þegar við settum á okkur hetturnar á síðúlpunum okkar. Þær náðu yfir hluta andlitsins og svo var hert að með böndum. Gufan frá andardrættinum átti það til að frjósa og gat þá ullin frosið við varirnar. Þá var eina ráðið að setja hendurnar upp að munninum og anda hraustlega svo hitinn frá andardrættinum losaði ullina frá.


Í kömpunum var misjafnt hvenær hinar ýmsu athafnir fóru fram eins og trúariðkun og hvíld. Þetta var gert svo mögulegt væri að stuðla að öryggi svæðisins allan sólarhringinn, alla daga. Sem dæmi þá voru sunnudagar í einum kampinum á mánudögum og á fimmtudögum í öðrum o. s. frv. Í sumum kömpum voru hefðbundnir sunnudagar ósköp venjulegir vinnudagar með tilheyrandi skyldum. Þetta krafðist góðrar ástundunar herprestanna og mikilla ferðalaga á milli staða. Stundum voru vegirnir ófærir en oftast tókst okkur að vera með guðsþjónustur á tilsettum tíma. Kapteinn Corcoran var kaþólskur og stundum þegar lútherskur prestur komst ekki á staðinn, fór ég með honum í kaþólska messu. Ég man að presturinn var alltaf svo góður við að útskýra hlutina í messunum, fyrir okkur sem vorum ekki með það á hreinu hvernig þetta ætti að fara fram. Allir prestarnir okkar, sama hvaða kirkjudeild þeir tilheyrðu – kaþólskir, mótmælendatrúar eða gyðingar – voru alveg frábærir. Líklega er enginn staður betri en herinn til að tileinka sér umburðarlyndi.

Í lok mars 1943 bilaði rafallinn í kampinum okkar. Við gátum ekki lagað hann því okkur vantaði varahlut sem þurfti að panta frá Reykjavík. Það tók þrjár vikur. Ég held við hljótum að hafa keypt alla gas- og steinolíulampa og luktir sem til voru á Akureyri þessar þrjár vikur – og öll kerti auðvitað líka. Við söknuðum þess að geta ekki horft á kvikmyndir og fyrir vikið var myrkrið meira á næturnar. En dagarnir urðu lengri í apríl og fljótlega urðum við vitni að fegurð miðnætursólarinnar.


Á Íslandi eru engir snákar og í raun ekki mikið um villt dýr. Það er eitthvað um heimskautarefi og seli meðfram ströndinni og býsna margar rottur. Mikið er af flugu yfir sumartímann en hún bítur ekki. Fuglar eru alls staðar, sjófuglar og endur. Einn er sá fugl sem Íslendingar veiða sér til matar. Hann er tvisvar sinnum stærri en akurhæna og gengur undir nafninu rjúpa. Hún er af hænsnaættbálki og breytir um lit á veturna þegar hún verður skjannahvít svo hún geti falist í snjónum. Það voru margar rjúpur í dalnum okkar. Á vorin þegar snjóa leysti tókum við eftir því hvernig þær breyttu smám saman um lit. Þá minntu þær á litla snjóbolta á víð og dreif um dalinn. Þær voru prýðisgóður matur en við höfðum engar haglabyssur til að veiða þær. Fallegar, hvítar álftir með langan háls settust einnig að í dalnum og heilu hóparnir af margs konar öndum voru um allan fjörðinn.


Ég held ég hafi ekki verið búinn að minnast á það en fyrstu ár styrjaldarinnar bárum við og bandamenn okkar alltaf gasgrímur. Og Þjóðverjar líka. Síðar þegar mönnum varð ljóst að stríðandi aðilar myndu ekki grípa til efnaárása hættum við að ganga með þær á okkur. Þetta vor þurftum við þó að hafa grímurnar til taks og eins og var með hjálmana, þá þurfti maður að nota grímurnar til að venjast þeim. Við æfðum okkur í tuttugu mínútur á dag og alltaf á sama tíma, bárum þær upp að andlitinu og festum þær á þann hátt sem ætlast var til. Yfirleitt gekk þetta snurðulaust fyrir sig fyrir utan að við litum allir út eins og marsbúar. Þó man ég eftir einu tilviki þegar ég fékk hláturskast í hljóði og með grímuna á. Einn daginn snemma að vori þegar ísinn á sjónum við Akureyri hafði bráðnað, fyrirskipaði einn foringinn okkur að fara í stutta siglingu út fjörðinn og halda okkur nálægt landi til að kanna ströndina og kortleggja hana. Ég ásamt nokkrum öðrum rissaði upp kort af strandlengjunni á meðan á siglingunni stóð. Allt gekk þetta samkvæmt áætlun þar til við komum að mynni fjarðarins. Þar skall á stórhríð og mikil ölduhæð. Báturinn lét ófriðlega og við fengum sjó á okkur. Við héldum dauðahaldi í bátinn og ekki laust við að sjóveiki gerði vart við sig. Um borð var maður sem var þekktur fyrir að fara alltaf nákvæmlega eftir öllum reglum. Ég tók eftir því að hann leit reglulega á úrið sitt og þá áttaði ég mig á því að það var alveg að koma sá tími dagsins þar sem við æfðum okkur að setja upp gasgrímurnar. Okkur hinum datt ekki í hug að setja upp grímurnar við þessar erfiðu aðstæður í öldusjó en gerðum alveg eins ráð fyrir að þessi samviskusami hermaður myndi gera það. Við vorum tveir félagarnir sem ákváðum að veðja um það hversu lengi hann myndi þola við með grímuna á sér í ölduganginum. Og hvað haldið þið, auðvitað setti maðurinn upp grímuna þegar sá tími dagsins rann upp. Þarna stóð þessi vesalingur í brjáluðu veðri um borð í litlum bát á opnu hafi og leit til okkar með þessar risastóru augntóftir til að kanna hvort við myndum ekki gera slíkt hið sama. Við létum á engu bera, héldum okkur fast og gerðum ekkert. Hann hefur líklega þolað við með grímuna á andlitinu í þrjár mínútur en þá tók hann sprettinn í átt að bakborða. Þannig fór um sjóferð þá. Ég man ekki hver vann veðmálið en þetta var þess virði. Við vorum reyndar báðir vonsviknir yfir því að hann skyldi ná að taka af sér grímuna tímanlega.


Rússnesk skip sigldu aldrei inn fjörðinn enda höfðu þau enga ástæðu til þess að sigla þangað inn. Ég man þó eftir einu skipi sem gerði það og það var undir frekar undarlegum kringumstæðum. Ratsjárstöðin okkar nam merki frá rússnesku flutningaskipi einn morguninn. Því fylgdu skilaboð frá áhöfninni þar sem óskað var eftir sjúkrabíl við höfnina til að taka á móti lækni skipsins þegar það legðist að bryggju. Okkur þótti þetta skrítið svo við óskuðum eftir frekari upplýsingum til að vita eitthvað meira við hverju væri að búast, í hverju neyðarástandið væri fólgið. Þá kom í ljós að læknirinn um borð var þunguð kona með verki. Þarna komumst við að því að mörg rússnesk skip höfðu konur í áhöfn sem og norsk skip og raunar fleiri bandamenn okkar. Raunar var sú skipan mála um borð í skipinu sem við áttum síðar eftir að sigla með frá Akureyri til Reykjavíkur.


Með komandi vori og sumri urðu dagarnir alltaf lengri og lengri og næturnar að sama skapi styttri. Snjórinn bráðnaði og við gátum klætt okkur úr síðúlpunum. Nú tók við áskorun að finna sér eitthvað að gera á þessum löngu dögum. Þorskur gekk inn fjörðinn í maí og þá skipulögðum við daglega fiskitúra til að auka fjölbreytni matarskammtanna okkar. Við renndum fyrir fiski á bryggju við lýsisverksmiðju eina sem var í grennd við okkur. Við sendum heilu trukkana til kampanna á svæðinu til að útdeila aflanum rétt eins og við værum að útdeila matarskömmtum í stríðinu. Fiskurinn var mjög feitur og ekkert sérstaklega bragðgóður. En hann var tilbreyting frá því fæði sem við vorum vanir.


Þegar skip komu til Akureyrar með varning, fengum við frosið kjöt og stundum egg með skurn sem höfðu verið geymd í kæli. Það var tilbreyting frá eggjunum sem voru í duftformi. Eggin geymdust vel og voru bragðmikil. Ég man eftir einni sendingu sem hafði stimpilinn „Union of South Africa“. Flutningaskipin færðu okkur líka stundum Coca Cola og bjór bæði í flöskum og dósum, visst magn á mann. Þegar von var á þessum sendingum var venjan að spila póker. Ég og kapteinn Corcoran geymdum skammtana okkar í strigapokum sem voru notaðir til að flytja lauka. Við komum pokunum fyrir í fjallalæknum sem rann rétt fyrir utan braggann okkar og þannig héldum við drykkjunum okkar ísköldum. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hvað Coca Cola gat verið góður drykkur fyrr en þarna.


Varðveislumenn minjanna að störfum við Krossastaðaá sumarið 2022. Hugh L. Bryan og fleiri úr herdeildinni hans notuðu „lækinn“ m.a. til að kæla gosdrykki og bjór.

Sumarið bar með sér tíðindi af ósigri Þjóðverja og Ítala í Afríku og góðum árangri Sovétmanna á austurvígsstöðvunum. Svo virtist sem Íslandi stafaði ekki lengur hætta af Þjóðverjum og bandamönnum þeirra og tímabært að huga að brotthvarfi okkar frá Norður-Íslandi með stefnu á Evrópu. Okkur var þó ætlað að dveljast í fjóra mánuði í viðbót á Íslandi en á stað þar sem var meira líf og fleira fólk á sunnanverðu landinu. Ég held að enginn okkar hafi grátið það að fara frá Akureyri. Við hlökkuðum til að umgangast fólk aftur. Við gengum um borð í amerískt herskip og yfirgáfum Akureyri og Eyjafjörð í fylgd tveggja lítilla breskra herskipa í lok maí árið 1943.


Dvöl Hugh L. Bryan á Íslandi lauk haustið 1943. Hann þvældist á milli landa á Bretlandseyjum og meginlandi Evrópu næstu tvö ár, þar til herþjónustu hans lauk og hann snéri heim til Bandaríkjanna. Í september árið 1945 sameinaðist litla fjölskyldan á ný. Þá voru liðin rúm þrjú ár frá því að Hugh veifaði til eiginkonunnar Nanny og dótturinnar Margaret úr lestinni sem flutti hann til New York þaðan sem hann sigldi til Íslands. Siglingin með MS Batory markaði upphaf herþjónustu Bryan í Evrópu í stríði Bandamanna gegn nasistum í seinni heimsstyrjöldinni – herþjónustu sem hófst á Krossastöðum í Hörgárdal.


-


Varðveislumenn minjanna er félagsskapur fólks sem deilir áhuga á sögu, varðveislu minja og útivist. Varðveislumenn hafa undanfarin misseri kannað slóðir setuliðsmanna við Krossastaði í Hörgárdal. Ýmsir áhugaverðir gripir hafa litið dagsins ljós. Leiðangrar VM að Krossastöðum eru með leyfi landeiganda og með vitund minjayfirvalda.


Heimild:


Hugh L. Bryan. (1986, apríl). O – 327040 by Hugh Bryan [endurminningar Hugh L. Bryan úr seinni heimsstyrjöldinni – vélrituð skjöl á pdf-formi].Indiana Military Organization. http://www.indianamilitary.org/30TH/References/094%20-%20118th%20INF%20package/Hugh%20Bryan%20Diary/Hugh%20Bryan%20Diary%20118INF-L%20003.pdf


47 views0 comments

Comments


bottom of page