top of page
Search
  • arnar7

Nauðlending á öræfum



„Sunnudaginn 18. nóvember árið 1951 lagði lítil flugvél upp frá Melgerðismelaflugvelli, og var ákvörðunarstaður hennar Reykjavík. Vélin, sem bar einkennisstafina TF—KAM, var tveggja sæta eins hreyfils tvíþekja. Í vélinni voru eigendur hennar, þeir Viktor Aðalsteinsson, nú flugstjóri hjá Flugfélagi Íslands, og Stefán E. Sigurðsson, sá er þessar línur ritar.“

Þannig hefst reynslusaga sem birtist í dagblaðinu Íslendingi í desember árið 1961 undir heitinu Nauðlending á öræfum fyrir 10 árum síðan. Í sögunni deilir Stefán upplifun sinni af örlagaríkri flugferð með lesendum 10 árum eftir að hún endaði með nauðlendingu á öræfunum upp af Eyjafjarðarbotni. Hér að neðan er frásögn Stefáns skráð eftir upprunalegu heimildinni og henni miðlað til lesenda Sagnalistar. Gefum Stefáni E. Sigurðssyni orðið.

„Ferð þessi var farin til þess að láta athuga og yfirfara suma af mælum vélarinnar, og rétta af áttavita hennar, en þessi verk voru ekki framkvæmanleg annars staðar en í Reykjavík.


Ferðin suður gekk í alla staði vel, og vorum við lentir á Reykjavíkurflugvelli eftir tæpa tvo klukkutíma.


Á mánudaginn hófst viðgerð mælanna, en var ekki lokið um kvöldið. Snemma á þriðjudaginn vorum við tilbúnir til heimferðar, en smávegis tafir orsökuðu, að ekki var lagt af stað fyrr en um hádegi. Ákveðið var að fara beina stefnu norðan jökla og koma niður í Villingadal, en á þeim árum var það algengasta flugleiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur. Flugumferðarstjórnin gaf flugheimildina fyrir þessari leið, og skýrði okkur frá veðrinu á leiðinni, léttskýjað, norðan hægviðri og bjart, en allmikið frost.


Lagt af stað norður


Kl. 12.39 hófst flugið frá Reykjavík, og var flugtíminn áætlaður rúml. tvær klst., en eldsneyti höfðum við til 3½ - 4 stunda flugs. Kl. 13.00 erum við staddir yfir Esjunni í 5500 feta hæð og höfum stefnu á Eiríksjökul. Snjór er yfir öllu, veður stillt, en frost 10 gr., en það sakar okkur ekki, því vélin er upphituð, og auk þess erum við klæddir þykkum skinnfötum.


Útsýni er gott, og hrikalegur Eiríksjökull, með sínar svörtu hamrahlíðar og snæviþakta koll, gnæfir yfir félaga sína og nágranna, Ok og Strút, jafnvel sjálfur Langjökull verður að viðurkenna hæð hans og tign.


Umrædd flugvél þeirra félaga Stefáns og Viktors á Melgerðismelum

Okkur miðar vel, og brátt er þessi tignarlegi jöklakonungur að baki. Flughæðin er 6000 fet og hraðinn um 85—90 mílur á klukkustund. Kl. 14.20 erum við komnir langleiðina að Blönduvaði, og þar mætum við Loftleiðaflugvélinni Vestfirðing. Flaug hann nokkru norðar en við og í um 1000 feta minni hæð. Við vonuðum, að þeir á Vestfirðing tækju eftir okkur, svo þeir gætu látið vita um staðarákvörðun okkar með talstöðinni, en við höfðum ekki senditæki í okkar vél. Til þess að vekja athygli þeirra, veltum við vélinni á báðar hliðar, en þeir virtust ekki sjá okkur, a. m. k. sýndu þeir það ekki á nokkurn hátt. Vestfirðingur var á leið frá Akureyri til Reykjavíkur. Vestfirðingur hverfur til suðurs, og aftur erum við einir á ferð. Framundan er hálendið milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar, og bráðum verðum við í Eyjafirðinum. Framundan birtast Urðarvötn. Þau eru ísi lögð, og á ísnum er snjór.


Versti óvinurinn nálgast


Veðrið er enn bjart og gott, og við lækkum flugið í áttina að Hafrárdal, sem er þverdalur vestsuðvestur úr Eyjafirði. — Þá skeði það. Hreyfillinn hægir allt í einu á sér. Viktor eykur við hann eldsneytisgjöfina, en það kemur fyrir ekki. Snúningshraðinn minnkar jafnt og þétt. Og við vitum hvað er að. Versti óvinur flugmanna, næst þokunni, ísingin. Ísing hefur setzt í blöndunginn, og hreyfillinn fær ekki nægilegt súrefni. Framundan er fjallgarður með dökku og óárennilegu klettabelti. Okkur er þegar ljóst, að ofan í Eyjafjörð komumst við ekki. Nauðlending er eina leiðin. Vélin lækkar ört, og nú er hæðin aðeins 3500 fet. En hvar á að lenda? Fyrir neðan okkur eru aðeins klettar eða snjór, hvergi sléttur flötur, en flugvél þarf sléttu til að lenda á. Snúningshraði hreyfilsins er nú aðeins 1300 snúningar með fullri eldsneytisgjöf, en á að vera 1925 í venjulegu flugi, og eftir tvær til þrjár mínútur hljótum við að koma til jarðar, ef ekki gerist kraftaverk. Tveir menn í eins tonns málmbákni, sem nálgast jörðina ört og geta enga björg sér veitt.


Nauðlending ákveðin


Í skyndi er lendingin ákveðin. Við veljum okkur stærðar snjóskafl norðan til í fjallshlíð. Þarna verðum við að lenda, um annað er ekki að ræða. Ómjúk hlýtur viðkoman við móður jörð að verða, en ekki er að fást um það, þetta er eina leiðin, klettarnir og klungrin eru þó óárennilegri. Við spennum beltin eins fast og unnt er. Síðan tökum við allt lauslegt sem við höfum meðferðis af fatnaði, og einnig seturnar og bökin úr sætunum. Þessu hlöðum við öllu á mælaborðið fyrir framan okkur, til varnar höfðinu, því við eigum von á miklu höggi, er vélin snertir snjóinn. — Og svo er stefnt í skaflinn. Hraðinn er 55—6O mílur. Við skiptum með okkur verkum. Viktor sér um stjórn vélarinnar, mér er ætlað að loka fyrir eldsneytið og taka úr sambandi allt rafmagn, á réttu augnabliki, rétt þegar vélin snertir snjóinn. Jörðin nálgast óðum, en við erum furðu rólegir. Hugsunin er aðeins ein, — að bjarga lífinu. Jörðin nálgast óðfluga, tíminn er naumur. Við erum þess fullkomlega meðvitandi, hvað okkur ber að gera. Ein mínúta til umráða. Vélin er nú á lokastefnu inn að hinum óhugnanlega lendingarstað. 30 sekúndur, og við erum tilbúnir. Tilbúnir góðri lendingu, sem tæpast er þó að vænta. Eða slæmri lendingu, sem getur boðað eilífa þögn.


Rauði punkturinn sýnir staðinn þar sem flugvélin nauðlenti

Talið upp að þremur


Tilbúinn, segir Viktor, nú kemur það. Ég tel upp að þrem, og svo svissar þú öllu út. Einn — tveir — þrír. Við síðasta orðið svissa ég magnettunum af og þrýsti mér því næst fram að hinum miklu umbúðum, sem ég hef komið fyrir á mælaborðinu. Og svo skeður það. Vélinni er vísað eins mikið upp á við og unnt er, en hraðinn er kominn niður í 50 mílur. Fyrst snertir stél vélarinnar snjóinn, og svo skellur hún fram á belginn, og grefst í skaflinn. Ég fæ ógurlegt högg. Áður gefst mér þó tími til að taka rafmagnið úr sambandi, og loka fyrir benzínið.


— Svo er þögn, — óhugnanleg þögn. Hef ég misst meðvitund? Ég veit það ekki, en er ég rís upp frá mælaborðinu, sem ég hef kastazt fram að, verð ég þess var, að beltið, sem hélt mér niðri, er slitið. Ég kalla í Viktor, og spyr: — Ert þú meiddur? Svarið kemur um hæl. — Nei, og samtímis komum við báðir út úr vélinni. Hún fór þá svona, verður Viktor að orði, er hann virðir fyrir sér vélina, þar sem hún liggur hálf á kafi í skaflinum, en það var raunar þessi skafl, sem bjargaði lífi okkar.



Leitað til byggða


Og hér stöndum við tveir umkomulausir menn, mitt í auðninni á öræfum uppi. Og hvað getum við gert? Tugir kílómetra til byggða, og kafaldssnjór framundan. Er við höfum áttað okkur nokkuð eftir lendinguna, ákveðum við að halda hið bráðasta í átt til byggða. Við erum staddir í um 3000 feta hæð, í 12 stiga frosti, en úrkomulausu og góðu veðri. Hins vegar er nú hávetur og allra veðra von, auk þess fer myrkur í hönd, því klukkan er tæplega 3.30 20. nóvember, og á þeim tíma dimmir fljótt. Eftir nokkra athugun tökum við annan áttavitann úr vélinni, einnig merkjabyssuna og 6 lituð skot. Þá höfum við með okkur allan þann fatnað, sem til er í vélinni, 1 kg. af súkkulaði, og nokkur epli. Áður en við yfirgefum vélina, skrifum við á blað, það sem fyrir okkur hefur komið, jafnframt lýsum við þeirri leið, sem við ætlum til byggða. Þetta blað setjum við í framsæti vélarinnar, lokum henni því næst, og svo örkum við af stað.


Búnaði okkar er svo háttað, að við erum báðir klæddir venjulegum fötum, þar utan yfir erum við í mjög skjólgóðum skinnfatnaði, buxum og jakka, og á fótum höfum við skinnfóðraðar skóhlífar, sem ná upp á miðjan legg. Til handa og höfuðs erum við hins vegar heldur illa búnir, höfum aðeins eina vettlinga og báðir höfuðfatslausir. Þó eru með í ferðinni tveir treflar, sem við skerum sundur og notum sem húfur og vettlinga.


Nótt í snjóskafli


Ferð okkar sækist heldur seint, því þótt við séum vissir um, að við höldum réttri stefnu, dimmir fljótt, og einnig er ófærðin mikil. Þó þokast í áttina, en ætlun okkar er að komast í kofa, sem Ferðafélag Akureyrar á hér neðarlega í fjöllunum. Um fimmleytið fer að snjóa, og skömmu seinna hvessir að mun, og er þá samstundis komin stórhríð.


Við erum enn óþreyttir, en í þessu veðri munum við fljótt uppgefast, það er okkur ljóst, þess vegna ákveðum við að setjast að, og bíða morguns. Þá er klukkan 18.30, og komin iðulaus norðan-stórhríð.


Við leitum hælis undir stórum steini, en suður af honum hafði myndazt all-mikill skafl. Við gröfum niður í skaflinn, all-stóra holu, og síðan skríðum við ofan í hana. Bráðlega skeflir yfir okkur, og hér liggjum við hlið við hlið, ákveðnir í að bíða morguns. Þá vonum við að fá bjartara og betra veður.


Vist okkar í skaflinum var ekki beinlínis skemmtileg, en þó er ekki hægt að segja, að hún hafi verið viðburðalaus. Ekki áræddum við að sofna, en ákváðum að halda hvor öðrum vakandi, ýmist sungum við eða sögðum hvor öðrum sögur. Af og til brutum við gat á skýli okkar og litum upp. Jafnvel fórum við upp úr skýlinu um nóttina og gáðum til veðurs. Okkur var ljóst að leit mundi hafin að okkur, og vonuðum við stöðugt eftir flugvélum yfir staðinn, en aldrei birti svo um nóttina, að flugvélar væri að vænta. Ef við hins vegar hefðum orðið flugvélar varir, ætluðum við að nota flugeldabyssuna, og láta á þann hátt vita um, hvar við værum staddir.



Áttavitinn vísaði veginn


Nóttin líður. Ömurleg og köld. Ekki verðum við þess þó varir, að okkur hafi kalið. Líðanin er sæmileg, er við brjótumst úr hýði okkar að morgni. Í birtunni sjáum við, að útlit okkar er ekki glæsilegt. Við erum mjög klakaðir í andliti, og allmjög blóðugir, þar sem við höfðum báðir hlotið blóðnasir og aðrar skrámur í lendingunni. Þá vorum við nokkuð stirðir eftir nóttina. En kl. 8 vorum við komnir af stað, eftir að hafa neytt nokkurs hluta súkkulaðisins og eplanna, sem við höfðum geymt innanklæða um nóttina. Enn var snjókoma og nokkur stormur af norðri, og sáum við aðeins nokkra metra framundan. Þá hafði einnig snjórinn aukizt að mun, svo hann tók okkur nú í mitt læri. Áttavitinn vísaði okkur leiðina, og við héldum óhikað áfram, vitandi það, að við hlytum að hitta leitarmenn mjög fljótlega. Allt í einu hallar undan fæti, og þá vitum við, að við erum á leið niður hlíðina, ofan í Hafrárdal.


Um 10 leytið sjáum við framundan einhverja birtu, og nokkru síðar komum við út úr hríðinni. Þá erum við staddir í fjallshlíðinni sunnan Hafrár nálægt þeim stað, sem Vatnahjallavegur er. Hér niðri er bjart og minni snjór. Hríðin er að baki, og við þessa sjón birtir einnig í huga okkar. Er við höfum skammt farið, komum við auga á einhverja þústu í hlíðinni hinum megin árinnar. Skyldu það vera leitarmenn? Við athugum þetta um stund, og erum sammála um að svo sé. Þá er merkjabyssan tekin upp og rautt skot sent í átt til þeirra. Við sjáum að þeir nema staðar. (Seinna kom í Ijós að þeir höfðu heyrt skotið, en ekki séð ljósið.) Við sendum annað skot, og þá breyta þeir um stefnu og halda í áttina til okkar. Við erum fundnir.


Skömmu seinna mæta þeir okkur, og verða þá miklir fagnaðarfundir. Þetta er leitarflokkur undir stjórn Karls Magnússonar járnsmiðs á Akureyri, með honum eru Tryggvi Helgason flugmaður, Due Eðvaldsson bílstjóri og Tryggvi Aðalsteinsson Jórunnarstöðum.


Þeir færa okkur ýmsar fréttir í sambandi við leitina að okkur, einnig hafa þeir meðferðis mat, heitt kaffi og fleira.


Þeir eru með stóran trukk á eyrunum þar neðra, hafa komið á honum um morguninn frá Akureyri. Þeir segja okkur að fjöldi leitarflokka séu farnir af stað og 8—9 flugvélar leiti einnig. Þá er um að gera að komast sem fyrst í síma, svo leitin verði stöðvuð sem fyrst. Greiðlega gengur að komast til bifreiðarinnar og er nú ekið sem hraðast að Ártúni í Eyjafirði, en það var fremsti bærinn, sem þá hafði síma. Er þangað kemur, fer Karl heim að bænum og símar til Akureyrar en heimafólk færir okkur kaffi og heitar pönnukökur.


Fregnin um að við værum fundnir barst fljótt út um bæinn, því er við komum þangað varð ekki þversfótað fyrir fólki, sem kom til að fagna okkur og bjóða okkur velkomna. Við héldum rakleitt til afgreiðslu Flugfélags Íslands, en þaðan hafði leitin verið skipulögð, einkum af þeim Þorsteini heitnum Þorsteinssyni framkv.stjóra Ferðafélags Akureyrar og Kristni Jónssyni framkvæmdastjóra F. Í. AIls munu hafa tekið þátt í leitinni um 150 manns úr Eyjafirði og Skagafirði, auk margra flugvéla. Þessi ferð okkar var þá á enda, og hafði hlotið giftudrjúgan endi. Meiðsli okkar voru lítilfjörleg, smávegis kal á hægra fæti mínum var það helzta. Skömmu seinna var gerður út leiðangur til að ná vélinni og tókst það vel. Við flugum vélinni mikið eftir þetta, en seldum hana nokkrum árum seinna. Eftir það hlaut hún svipleg örlög, en það er önnur saga.“

Mynd sem fylgdi fréttinni í Íslendingi um björgun vélarinnar

Rúmri viku eftir nauðlendinguna birti Íslendingur frétt um tilraun til að bjarga flugvélinni.


„Viktor fór s. l. laugardag við 8. mann inn að vélinni, og tóku þeir með sér efri væng vélarinnar og báru niður að kofa Ferðafél, þar sem hann var látinn á bifreið og ekið niður á Melgerðismela. Fór hann aftur á sunnudag með nokkra menn með sér á herbifreið Svifflugfélagsins, og komu henni alla leið upp að „Sankti Pétri“- vörðu, en flugvélin er þar í ca. 3 km. fjarlægð. En þá var orðið svo áliðið dags og veður versnandi, svo að þar var snúið við, en farangur hirtur, sem þeir félagar höfðu orðið að skilja eftir á Hafrárdal. Í dag var áætlaður leiðangur með jarðýtu og stóran sleða inn að flugvélinni til að reyna að koma henni til byggða.“


Um flugvélina og örlög hennar segir svo í barnablaðinu Æskunni árið 1971.


„Skráð hér 12. nóvember 1951 sem TF-KAM, eign Viktors Aðalsteinssonar og Stefáns E. Sigurðssonar á Akureyri. Skráð til kennsluflugs. Flugvél þessi hafði komið hingað nokkrum árum áður með skemmda vængi. Þeir voru endursmíðaðir með stykkjum úr TF-BBC.


Hún var smíðuð 1940 hjá Fleet Aircraft Company, Ontario, Kanada. Raðnúmer: RCAF 4559.


20. nóvember 1951 var flugvélin á leið frá Rvík til Melgerðismela, er hún nauðlenti vegna vélarbilunar í snjóskafli sunnan í Kerlingarhnjúk. Flugvélin brotnaðl nokkuð, en ekki sakaði flugmennina. Hún var flutt á sleða til byggða. Hún varð flughæf að nýju 23. maí 1953.


9. september 1953 var flugvélin skráð eign Tryggva Helgasonar o. fl. á Akureyri.


12. febrúar 1956, þegar flugvélin var á leið frá Akureyri til Reykjavíkur, vildi það slys til, að flugvélin steyptist til jarðar á Holtavörðuheiði. Flugmaðurinn, sem var einn síns liðs, fórst, og flugvélin ónýttist.“


Heimildir:


Arngrímur Sigurðsson. (1971). Íslenska flugsagan – Flug. Æskan, 72(10), 10.


Flugvél nauðlendir inn í óbyggðum. (1951, 21. nóvember). Íslendingur, bls. 1.


Stefán E. Sigurðsson. (1961, 16. desember). Nauðlending á öræfum fyrir 10 árum síðan. Íslendingur, bls. 1 og 5.

268 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page