Search
  • Sagnalist skráning og miðlun

Skyggna stúlkan og dularlæknirinn

Updated: Nov 9, 2020
Margrét frá Öxnafelli fæddist árið 1908. Margrét hafði mikla skyggnigáfu og gat bæði séð inn í framtíðina sem og liðna atburði. Daglega átti hún í samskiptum við framliðna, sá álfa og huldufók og gat farið sálförum og þannig ferðast um heiminn utan líkamans.


Þuríður, móðir Margrétar veiktist alvarlega þegar hún var 10 ára. Eitt sinn í veikindum móðurinnar, þegar hún bað til æðri máttarvalda, birtist henni maður að nafni Friðrik. Hann var dularlæknir. Þuríður náði fullri heilsu en skjótur bati hennar vakti athygli sveitunganna í Saurbæjarhreppi. Sagan um hæfileika Margrétar og tengsl hennar við andaheiminn náði fljótlega eyrum almennings. Skyggna stúlkan frá Öxnafelli var nú á allra vörum. Bataferli Þuríðar markaði upphaf samstarfs Margrétar og Friðriks sem átti eftir að vara í 70 ár.


Árið 1960 kom út bókin Skyggna konan á vegum bókaútgáfunnar Fróða. Í bókinni eru birtar lækningasögur auk þess sem Margrét segir sjálf frá. Dagblaðið Tíminn birti kafla úr bókinni í nóvember 1960 þar sem segir frá samskiptum Margrétar við Friðrik. Sagnalist rifjar upp merkilegt samstarf tveggja heima um sjö áratuga skeið með því að skyggnast inn í samantekt Tímans.


Skyggna stúlkan Margrét frá Öxnafelli lést árið 1989.


Margrét Thorlacius frá Öxnafelli (1908-1989)

„Þegar ég var um 10 ára að aldri, varð ég Friðriks fyrst vör. Ég sá hann með huldu fólki uppi hjá Svörtuklettum. Þá spurði ég hann, hvort hann væri huldumaður. Sagði hann, að ég mætti kalla sig það.


Ég álít, að Friðrik hafi sagt þetta, til þess að ég yrði síður hrædd við sig. En ég hafði áður kynni af huldufólkinu og bar traust til þess. En nú veit ég, að Friðrik er mennskur, framliðinn maður, en enginn huldumaður. Hann er kærleiksrík vera, sem vill hjálpa mönnum og lina þrautir þeirra.


Um þetta leyti var móðir mín mikið veik. Þá var ég orðin kunnug Friðriki, og spurði hann eitt sinn, hvort hann gæti hjálpað móður minni. Hann tók því vel. En ég varð mjög undrandi, er ég sá hann birtast í hvítum slopp eins og læknar nota. Áður vissi ég ekki, að hann væri læknir. En móður minni brá þegar til bata, svo að hún komst á fætur skömmu síðar.


Ég sagði henni frá þessu. Og báðar vorum við sannfærðar um, að Friðrik hefði hjálpað henni. Þetta barst til eyrna heimilisfólks og á næstu bæi. Það var upphafið að dularlækningum Friðriks.


Einn af merkustu atburðum, sem fyrir mig hafa komið gerðist kvöld eitt í Öxnafelli. Rigning hafði verið um daginn, en ég gekk út um kvöldið. Ég gekk upp fyrir bæinn og sá regnbogann í litskrúði sínu yfir sveitinni. Mér hafði verið sagt, að menn gætu óskað sér einhvers, ef þeir kæmust undir enda regnbogans.


Kom mér nú þetta í hug. Féll ég þá í einhverja leiðslu þar sem ég sat á þúfu og sá fagurt, dásamlegt lithaf allt í kringum mig. Fannst mér ég vera komin undir enda regnbogans og eiga óskastund. í þessu einkennilega hrifningarástandi óskaði ég þess af allri sálu minni, að mér mætti veitast það að geta hjálpað þeim, sem þjást og linað þrautir þeirra. Óskinni fylgdi mikill fögnuður og hrifning. Enn man ég eftir þúfunni í túninu, þar sem ég sat, þegar þetta gerðist. Þessi stund er mér ógleymanleg.


Þetta sama kvöld byrjuðu lækningar Friðriks fyrir alvöru. Þá um kvöldið kom Jóhannes Kristjánsson, aldraður maður, með mörg lækningabréf austan frá Húsavík. Voru það fyrstu lækningabeiðnir lengra að. En áður hafði ég verið beðin um hjálp frá Friðriki handa sjúku fólki úr nálægum sveitum.


Og nú hófst annasamt tímabil í lífi mínu. Hjálparbeiðnir bárust víða að með ferðamönnum, bréfum og símskeytum. Þetta gerðist árið 1924 og þá var ég 16 ára. Mest fékk ég 200 bréf í einu. Annars skiptu þessi bréf þúsundum, og var til af þeim full kista í Öxnafelli, en þau glötuðust í húsbruna síðar. Ekki gat ég svarað nema fáum bréfum af þessum fjölda, en las þau öll og kom efni þeirra á framfæri við Friðrik. Ekki veit ég um árangur nema af nokkrum hluta af hjálparbeiðnunum. Við og við fékk ég þó þakkarbréf fyrir það, að lækningar Friðriks hefðu borið árangur, og hinir ólíklegustu sjúkdómar batnað.


Þegar ég var beðin fyrir sjúkling, birtist Friðrik venjulega. Mér finnst samband mitt við hann mjög náið. Ég þarf ekki að skrifa upp nöfnin. Hann týnir aldrei neinu nafni og sinnir hjálparbeiðnunum. Ég get hugsað um þetta við heimilisstörfin og þarf ekki nauðsynlega að hafa stund í einrúmi, meðan lækningin fer fram.


En þegar fólk kemur til mín og biður mig fyrir sjúklinga, þá syfjar mig oft mikið og dregur úr mér mátt. Vera má, að þá sé tekin einhver orka frá mér til lækninganna. Oft heyri ég þá raddir, sem segja, að þessum sjúklingi muni batna. Bregzt það þá ekki. En sé alger þögn, bendir það til, að sjúkdómurinn sé svo alvarlegur, að hann muni leiða til dauða. Fæ ég á þennan hátt hugboð um árangur af lækningunum.


Aldrei hefur Friðrik sagt mér, hver hann var, meðan hann lifði hér í jarðneskum líkama. En mér finnst þó, að hann hafi verið læknir. Að útliti er hann hár og dökkhærður, skiptir hárinu í vinstri vanga og greiðir það aftur. Hann hefur hátt og breitt enni og dökkgrá augu. Þau eru sérstaklega falleg, mild, en þó einbeitt, Framkoman bendir til skapstillingar. Hann er oftast í gráum fötum, en stundum í hvítum slopp. Friðrik sá, sem Guðrún frá Berjanesi hefur samband við, er annar maður.


Þegar ég var beðin fyrir sjúkling, hugsa ég til Friðriks. Þá heyri ég fljótt svör hans og þekki röddina. Það er eins og símasamband sé á milli okkar.


Skilyrði þess, að þessar andlegu lækningar heppnist er, að fólkið sé opið fyrir þeim, segir Friðrik. Oft gerast þó lækningar án þess að fólk viti. En margs konar misskilningur kom fram fyrst í stað. Sumt fólk hélt, að hafa þyrfti opna glugga eða dyr, svo að Friðrik kæmist inn. Það er auðvitað mesti misskilningur. Sumir hafa orðið varir við Friðrik í þessum lækningaferðum, en aðra hefur dreymt hann.


Stundum er um að ræða bata á sjúkdómum, en í öðrum tilfellum er aðeins breyting á hugarfari sjúklingsins, hughreystingar og friðandi áhrif. Allir læknar þekkja, hve mikils vert það er, að sjúklingurinn hafi trú á bata, og hve andleg líðan sjúklingsins er mikils verð. Þá er og vitað, að orsakir sjúkdóma eru oft andlegar.


Sem dæmi um nauðsyn trúar á andlegar lækningar er eftirfarandi saga. Tvær gamlar konur bjuggu í sama húsi. Önnur hafði trú á andlegum lækningum, en hin ekki. Báðar voru heilsulitlar. En svo aukast veikindi vantrúuðu konunnar, og virðist henni þá hún hafa trú á lækningum Friðriks. En við þilið hinum megin lá hin konan, og hafði hún ekki beðið um neina hjálp. Þá dreymir konuna, sem bað um hjálpina, að Friðrik komi til sín og segi eftir litla stund: Hér er ekki hægt að hjálpa, allar leiðir eru lokaðar. En konan hélt að hann ætti við dyrnar eða gluggana. Hún fékk engan bata. En hin konan fékk snöggan bata og komst á fætur. Þakkaði hún það Friðriki. — „Sá getur allt, sem trúna hefur.“


Eitt sinn kom að Öxnafelli gamall maður, Guðm. Jónsson, kennari í Hjaltastaðahvammi í Skagafirði. Hann var góður og ástúðlegur maður. Áður en hann fór, segir hann, að sig langi til að biðja Friðrik að gera svolítið fyrir sig. Ekki vegna þess að hann þurfi þess með heldur vegna annarra. Hann trúi á mátt andlegra lækninga. Hann sagðist hafa hárlausan blett á höfðinu. Þegar hann hafi verið ungur, hafi hann átt erfitt með að hylja hann fyrir ungu stúlkunum. Nú standi sér á sama um hann. En ef Friðrik gæti grætt hár hans á þessum bletti, mundi það gefa mörgum trú á lækningamátt hans.


Síðar á þessu sama ári kom Guðmundur aftur að Öxnafelli. Sýndi hann mér þá hár sitt. Var þá hárlausi bletturinn hári vaxinn og ógerlegt að sjá, hvar hann hafði verið. Var Guðmundur mjög glaður yfir þessu fyrirbrigði.


Ég segi þessar tvær lækningasögur sem dæmi um það, hve fólk tekur misjafnt við andlegum lækningum. En ég hef aldrei skrifað neitt hjá mér af lækningum Friðriks og tel heppilegra að frásagnir af því komi frá öðrum.

En auk lækninganna var Friðrik mér alltaf nálægur og hjálplegur og er enn. Ég ætla að segja hér frá tveimur dæmum, þar sem hann hjálpaði mér á undursamlegan hátt.Í æsku hafði ég gaman af að vera úti og fór oft einförum. Ég var hrædd við vatn, en þó var eins og vatnið drægi mig að sér. Eitt kvöld að vorlagi fór ég ein út fyrir tún. Þá var mikill snjór og örleysing. Ég staðnæmdist við gildrag eitt, og rann mikill vatnsflaumur eftir gilinu, en stór skafl lá að því. Ég fór út á skaflinn og starði niður í straumiðuna. En ég gætti þess ekki að vatnið hafði grafið undan skaflinum. Allt í einu springur skaflinn og fellur niður í gilið, en ég hrapa niður í gjótuna. Í fátinu hugsa ég til Friðriks. Þegar ég kom til sjálfrar mín aftur, stóð ég uppi á skaflinum. Ég er þess fullviss, að í þetta skipti hjálpaði Friðrik mér, en ekki hef ég hugmynd um, hve langur sá tími var, sem ég mundi ekki eftir mér. Sennilega hefur það þó verið stutt stund. Ég var eitthvað undarleg um kvöldið. Og ekki sagði ég neinum frá þessu, fyrr en nokkru síðar.

Þegar Þóra systir mín var smábarn, var ég látin gæta hennar. Tvisvar minnist ég þess, að Friðrik hafi tekið Þóru og haldið á henni. En í bæði skiptin var ég ein með hana. Ég álít, að hann geti það ekki í návist fleiri manna.


Eitt sinn, er ég var að gæta Þóru, fór ég með hana út á hlað. Ég bar hana á bakinu. Þá prílaði ég með hana upp á spýtur, sem lagðar voru yfir gamlan sleða á hlaðinu. En spýturnar voru svo ónýtar að þær brotnuðu, og datt ég um leið og missti Þóru. Mér varð bilt við, því að ég óttaðist að barnið hefði meitt sig. En þegar ég leit við, sá ég hvar Friðrik hélt á henni og leggur hana gætilega niður. Hann hafði þá tekið á móti henni, er ég missti hana.


Mikið var leitað til mín um lækningar á árunum 1923—1925. Sumarið 1924 gekk lömunarveikin í Eyjafirði og kom fólk að Öxnafelli til að leita lækninga bæði að nóttu og degi. Gerðust þá margar merkilegar lækningar, og er sumra þeirra getið hér.


Þegar lömunarveikin gekk á Akureyri veturinn 1948— 1949 var einnig mikið leitað til mín. Voru ástæður, mínar þá erfiðar, því að ég eignaðist yngsta barn mitt þá í desember. Þá bað ég Friðrik að vernda heimilið fyrir lömunarveikinni. Sagði hann okkur að fara sem minnst af heimilinu. Um þetta leyti sá ég oft vængi í kringum mig. Þeir svifu í loftinu og voru bleikir innst og bláir yzt. Skoðaði ég þetta sem verndarvængi. Þeirra nyti við innan heimilisins, en ekki utan. Styrkti þetta mig í trúnni á það, að við mundum sleppa við veikina. Og mér varð að þessari trú minni, þó að veikin gengi uppi á lofti í sama húsi og í öllum nærliggjandi húsum.


Ég hef alltaf stöðugt samband við Friðrik, enda alltaf talsvert um lækningabeiðnir. Hin síðari ár eru og fleiri læknar í starfi með Friðriki, þó að ég telji ekki rétt að lýsa þeim eða nafngreina þá. Þó verður einn þeirra nefnd ur hér síðar.


Að lokum vil ég nefna tvö dæmi af mörgum um það, hvernig það rætist alltaf, sem Friðrik segir um daglegt líf mitt.


Systkinin í Öxnafelli fóru stundum á dansskemmtanir og langaði mig til að fara með þeim. En Friðrik sagði, að ég skyldi hvergi fara, og ef ég færi, mundi það valda mér vonbrigðum. Ég fór nokkrum sinnum, en hafði enga ánægju af þessum ferðum og hætti ég þeim þá alveg.


Eitt sinn, eftir að ég kom [til] Akureyrar, bað kona, sem kvaðst skrifa ósjálfrátt, mig að koma til sín. Friðrik sagði þá mjög ákveðið, að ég skyldi hvergi fara. En ég fór þrátt fyrir þessi mótmæli. En ég sá þegar, er ég kom inn í húsið, að þar voru aðeins lágar verur og ekki góðar og loft allt lævi blandið. Svipirnir földu sig fyrir mér, og allt, sem konan skrifaði voru tómar blekkingar. Sumar þessar blekkingar voru skrifaðar í nafni Friðriks. Mér leið þarna reglulega illa. Konan hringdi svo í bíl handa mér, og þegar hann kom, fannst mér hann svo ljótur og bílstjórinn skuggalegur, að mér leið ekki vel á heimleiðinni. Það er ekki alltaf þægilegt að vera næmur fyrir áhrifum og sjá fleira en aðrir.


Þannig rætist það alltaf, sem Friðrik segir mér.“


Heimildir:


Erlingur Davíðsson. (1989, 12. apríl). Margrét Thorlacius frá Öxnafelli - kveðjuorð. Morgunblaðið, bls. 35.


Friðrik dularlæknir. (1960, 20. nóvember). Tíminn, bls. 9 & 13.


Mynd af Margréti: Minjasafnið á Akureyri. (2020). Fengin af https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1742511

98 views0 comments