Search
  • Sagnalist skráning og miðlun

Var tíueyringurinn í eigu yngismeyjar á Glaumbæ?

Gamall tíueyringur leit dagsins ljós við vorhreingerningar fyrir utan skrifstofu Sagnalistar í dag. Sagnalist er sem kunnugt með höfuðstöðvar á neðri hæð Hælisins -setri um sögu berklanna, í Glaumbæ en svo var starfsmannabústaðurinn kallaður og tilheyrði áður Kristneshæli.


Lítilll hringlaga hlutur skaust upp í loftið á meðan verið var að rífa upp illgresi milli hellna á stéttinni. Þegar búið var að strjúka af honum mestu óhreinindin, kom í ljós að þarna var um litla og snjáða mynt að ræða, slegna árið 1970.

Starfsstúlkur á Hælinu bjuggu í húsinu eftir miðja 20. öldina og fram á fyrri hluta 9. áratugarins. Eins og nafnið ber með sér var oft glatt á hjalla í starfsmannabústaðnum og mikið rennerí af fólki inn og út, í eða úr gleðskap.

Beint fyrir ofan staðinn þar sem peningurinn hefur legið óhreyfður, líklega í einhverja áratugi, eru vistarverur þeirra sem bjuggu í Glaumbæ. Í dag eru þær hluti af sýningarrými sem hýsir sýningu um sögu berklanna þar sem saga starfsstúlknanna í Glaumbæ kemur einmitt við sögu.

Svo skemmtilega vill til að nokkrar myndir sem prýða veggi sýningarinnar fanga augnabik starfsstúlkna sem bjuggu í húsinu sama ár og peningurinn var sleginn, 1970. Hver veit nema einhver úr hópi þeirra hafi misst tíueyringinn út um gluggann eða úr vasanum á leiðinni á dansleik? Sagnalist geymir peninginn ef einhver yngismeyjanna í Glaumbæ skyldi vitja hans.


160 views0 comments