top of page
Search
  • arnar7

Víða sprengigígar í nágrenni Akureyrar

Skot- og sprengjuæfingar setuliðsins fóru fram langt frá mannabústöðum, á heiðum og upp til fjalla á hernámsárunum. Mikið af skothylkjum og sprengjuleifum sem fundist hafa í Hlíðarfjalli nokkur undanfarin ár ýta undir hugmyndir um að þar hafi setuliðið verið við slíkar æfingar. Sprengjusérfæðingur Landhelgisgæslunnar kom auga á nokkra gíga í leiðangri sem farinn var sumarið 2019 við rætur fjallsins sem hann áleit út frá lögun þeirra að væru líklega sprengjugígar frá seinni heimsstyrjöldinni.


Í fyrsta þætti af Leyndardómum Hlíðarfjalls kemur fram að setuliðið birti gjarnan auglýsingar í staðarblöðum um stað og stund æfinganna og skilaboð til Akureyringa og nærsveitarmanna um að ekki þyrfti að óttast hávaðann úr vélbyssum, rifflum og léttum fallbyssum. Skotæfingarnar færu fram eins langt frá mannabústöðum og hægt væri, þó hver og einn þyrfti að gæta varúðar á meðan æfingunum stæði.


Misbrestur virðist hafa orðið á þessu sumarið 1942. Í Degi birtist lesendaréf frá ósáttum bónda í nágrenni Akureyrar. Hann kvartar yfir framgöngu setuliðsmanna og hvernig þeir fara á skjön við eigin boðskap auglýsinganna:


Eitt er það, sem miklum óþægindum veldur hér í dreifbýlinu, en það eru her- og skotæfingar setuliðsins, en slíkar æfingar fara stundum fram dag eftir dag í heimalöndum sumra bæja, þar sem allt er þó krökt af lambfénaði og öðrum skepnum. Dag eftir dag heyrist geltið i vélbyssum og öðrum morðtólum herliðsins, eins og maður væri í nánd við víglínuna sjálfa. Allar skepnur tryllast, sem vonlegt er, og torveldar þetta mönnum mjög að fylgjast með burði ánna og að hemja skepnur í heimahögum. Það er og undur, að ekki skuli hljótast slys af mörgum þessum æfingum, því að ekki er mér kunnugt um, að þær séu auglýstar fyrirfram, og oft lítur svo út sem skotið sé af handahófi innan um bæi og fénað. — Sem dæmi má nefna það, að fyrir skömmu síðan fóru hér um tugir bifreiða með þungar fallbyssur í eftirdragi. Hófst svo hin ógurlegasta skothríð, loftið skalf og fjöllin kváðu við. Eldblossar og reykur sáust, hvar sem litið var. Fallbyssukúlur komu niður hingað og þangað innan um fjárhópa, mynduðu djúpa og stóra gígi og kviknaði sumstaðar í sinu út frá þeim.


Víða má finna gíga í nágrenni Akureyrar eftir sprengjur setuliðsins svo sem við Hlíðarfjall, í Glerárdal og í Vaðlaheiði.

Fyrsti þáttur af Leyndardómum Hlíðarfjalls Hernám og Varðveislumenn er á dagskrá á hlaðvarpssíðu Grenndargralsins fimmtudaginn 27. ágúst.


Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar skoðar sprengigíg ásamt Lögreglunni í Hlíðarfjalli sumarið 2019

37 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page